Frábær árangur hjá okkar fólki á Euroskills

Eins og greint var frá í síðustu viku héldu þrír fyrrum nemendur VA til Gdansk í Póllandi til þátttöku í Evrópukeppni iðn- og verknáms, Euroskills. Þetta voru þau Patryk Slota, sem útskrifaðist úr rafvirkjun frá VA árið 2017, Hlynur Karlsson, sem lauk grunndeild rafiðna frá VA árið 2021 og hélt síðan í rafeindavirkjun í Tækniskólanum og Írena Fönn Clemmensen sem lauk fjórum önnum í háriðn við VA árið 2019 og lauk síðan námi við VMA. Hlynur keppti undir merkjum Tækniskólans, Írena Fönn undir merkjum VMA en Patryk undir merkjum VA.

Í keppninni, sem stóð yfir í 3 daga, náðu þau öll frábærum árangri. Patryk lenti í 13. sæti í rafvirkjun, Írena í 9. sæti í hárgreiðslu og Hlynur í 8. sæti í rafeindavirkjun. Írena hlaut viðurkenninguna Medallion for Excellence en hana hlutu keppendur sem náðu góðum árangri í sinni grein. 

Við erum gríðarlega stolt af okkar fólki og óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn!

Hér fyrir neðan má finna myndir frá keppninni