Frábær árangur VA nema á Íslandsmóti iðn- og verkgreina

Íslandsmóti iðn- og verkgreina og sýningunni Mín framtíð 2019 í Laugardalshöllinni lauk í dag. VA tók þátt í sýningunni en nemendur skólans kepptu í tveimur greinum og einnig var skólinn með kynningarbás sem fjöldi gesta heimsótti.

Í rafvirkjun keppti fyrir hönd skólans Patryk Slota. Stóð Patryk í ströngu þessa þrjá daga  en í rafvirkjuninni var keppt í húsaraflögnum, iðnaðarraflögnum og forritun iðnstýringa. Patrik uppskar svo sannarlega fyrir erfiðið en hann bar sigur úr býtum í keppninni og er því Íslandsmeistari í rafvirkjun 2019. Einnig var verðlaunað fyrir hvern hluta fyrir sig og var Patryk einnig hæstur í iðnaðarraflögnunun.

Í háriðngreinum kepptu þær Kristín Rún og Jensína Martha í fantasíugreiðslum. Þemað í keppni Kristínar Rúnar var ,,funi“ en í keppni Jensínu Mörthu var þemað ,,frost“. Hafnaði Jensína í 2. sæti í sinni keppni.

Það er ómetanleg reynsla fyrir nemendur að taka þátt í keppni sem þessari. Ósjaldan er dálítill skjálfti í höndum keppenda við upphaf keppni en að lokum koma þeir út sem sigurvegarar, hvort sem þeir hafna í verðlaunasæti eða ekki. Því það er sigur út af fyrir sig að mæta og taka þátt. Til hamingju allir keppendur.  

Starfsfólk VA kemur einnig heim reynslunni ríkara. Kennarar í iðn- og verkgreinum öðluðust dýrmæta reynslu og einnig gafst okkur tækifæri á því að kynna skólann. Við höfum fulla ástæðu til þess að vera stolt af skólastarfinu og eigum að grípa hvert tækifæri til að segja frá því.

Að loknum viðburðaríkum dögum sem þessum er mikilvægt að þakka þeim sem studdu við bakið á okkur. Guðjóni Birgi í Hljóðkerfaleigu Austurlands þökkum við kærlega fyrir stuðning og einnig fyrrum nemendum VA sem stóðu vaktina með okkur í kynningarbás skólans.