Frábær frammistaða

Lið VA mætti liði MR í 8-liða úrslitum Gettu betur á föstudaginn í beinni útsendingu á RÚV. Fjöldi nemenda fylgdi liðinu suður og studdi afar vel við bakið á liðinu. Eins og fram kom í upphafi keppninnar var þetta í annað sinn í sögunni sem VA kemst í 8-liða úrslit keppninnar og voru Hákon, Helena og Ragnar því heldur betur að skrá sig á spjöld sögubókanna.

Eftir hraðaspurningar var staðan 18-10 fyrir MR og lauk keppninni með sigri þeirra 38-17. Okkar lið stóð sig frábærlega og er reynslunni ríkari eftir þátttökuna þetta árið enda í hópi átta bestu skóla landsins. Nú er takmarkið að koma enn sterkari að ári liðnu.

Það var þó ekki aðeins í spurningunum sem nemendur okkar slógu í gegn því þau Ísabella Danía og Kári Kresfelder gáfu innsýn í tónlistarlíf skólans með frábærum flutningi á laginu Ferð án enda. Lagið er eftir þá Steinar Gunnarsson og Bjarna Tryggvason og var flutt á sínum tíma af norðfirsku hljómsveitinni Sú Ellen. Útsetningin var í höndum þeirra Ísabellu og Kára sem unnin var í tónlistaráfanganum í skólanum sem er undir stjórn Jóns Hilmars Kárasonar. Lagið vakti strax mikla athygli við flutninginn og má finna upptökuna af því á fésbókarsíðu RÚV. Ekki kæmi á óvart ef þetta myndi heyrast enn oftar í framtíðinni.

Við erum svo sannarlega gríðarlega stolt af nemendum okkar sem slógu í gegn á öllum sviðum á föstudaginn!