Viborgarfréttir

Krakkarnir í miðbæ Kaupmannahafnar
Krakkarnir í miðbæ Kaupmannahafnar

Dvöl okkar hér í Danmörku hefur hingað til verið mjög notaleg. Við höfum komið okkur vel fyrir á vistinni og nýtum okkur allt sem þar er í boði s.s rækt, spilakvöld, bíóferðir, keilukvöld o.fl.

Viborg er mjög fallegur staður og hér er margt hægt að gera. Allt frá því að rölta um fallega bæinn, hjóla í skóginum og kringum vötnin, versla í miðbænum, borða á fjölbreyttum stöðum og njóta þess að vera á stað sem er svo frábrugðinn heimabæjum okkar. Sem dæmu sátu ég og Halldóra í gluggakistunni á vistinni í gærkvöldi og fylgdumst dolfallnar með eldingunum. En hér eru eldingar hinn eðlilegasti hlutur.

Núna á sunnudaginn, þann 25 ágúst vorum við búin að vera hér í Danmörku í þrjár vikur og þar sem Þórir Snær átti afmæli ákváðum við að skella okkur til Aarhus í Tivoli. Þar var farið í öll tæki og oftar en einu sinni. Í Aarhus fórum við líka út að borða og skelltum okkur á flóamarkað.

Í seinustu viku kláruðum við fyrsta "áfangann" okkar og þá var fært okkur í aðra byggingu sem er staðsett nokkra kilómetra frá vistinni. Þetta þýðir auðvitað að við þurfum að vakna snemma á morgnana og hjóla í morgunblíðunni. Það er mjög áhugavert að bíða í hjólaumferð við rautt ljós a morgnana því það sést ekki oft á Íslandi.

Nú eigum við eftir að eyða þremur vikum í nýja skólanum. Við erum búin að vera þar í tvo daga og hingað til hefur verið mjög gaman. Við erum í allskonar fögum s.s dönsku, stærðfræði og sögu og við erum strax búin að kynnast bekkjarfélögum okkar. Í dag fórum við í vettvangsferð til Haning sem er bær 45 minútum frá Viborg. Þar var okkur skipt í hópa og unnið var að því að leysa vandamál fyrir vatnsfyrirtæki. Við áttum að hugsa sem frumkvöðlar og finna lausn á því hvernig hægt væri að búa til áhugavert app sem fólk og sérstaklega ungt gæti skráð niður vatnsnotkun sína.

Það er margt spennandi framundan hjá okkur. Sem dæmi förum við í næstu viku með rútu til Kaupmannahafnar og gistum í eina nótt á hóteli en þar eru bekkjafélagar okkar að fara að kynna forrit sem þau hafa verið að vinna að. Þau munu kynna forritið sitt fyrir Apple og við fáum að slást með í förina.

Rebekka Rut Svansdóttir