Fyrrum nemandi VA í sigurliði Vitans

Fyrrum nemandi úr VA, Oddur Óli Helgason sem nú nemur rekstrarverkfræði í Háskólanum í Reykjavík, var hluti liðsins Babylon sem bar sigur úr býtum í Vitanum 2024. Vitinn er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og hefur verið haldinn árlega síðan árið 2015. Að þessu sinni var keppnin unnin í samstarfi við Ice Fresh Seafood og snerist áskorunin um að leggja til frekari umbætur á markaðssetningu fyrirtækisins á bleikju í Bandaríkjunum. Í keppninni öttu kappi sex lið nemenda eða alls 27 nemendur.

Sigurliðið fer fyrir hönd HR á sjávarútvegssýninguna í Boston auk þess sem þau heimsækja háskóla og fyrirtæki á svæðinu.

Oddur Óli sagði ferlið hafa hafist á því að teymið byrjaði að rannsaka hverjir kostir bleikjunnar væri. Þar var niðurstaðan sú að hún væri sú fiskitegund sem væri ríkust af Omega 3 fitusýrum og því töldu þau tilvalið að markaðssetja bleikjuna sem bólgueyðandi fæðu eða anti-inflammatory. Þá væri sérstaklega horft til fólks sem stundar þolíþróttir eins og járnkarl, þríþraut, hjólreiðar eða Crossfit. Þau töldu einnig að bleikjan þyrfti nýtt slagorð og úr varð vörumerkið Artic Char: Your Ally against inflammation.

Til þess að meta hvert ætti að beina markaðssetningunni nýtti teymið sér gögn um áhrif samfélagsmiðla, ásamt tölfræðilegum upplýsingum um þáttöku íbúa ákveðna borga í Bandaríkjunum, til að velja þær borgir sem skildi einblína á innan Bandaríkjanna þegar kemur að markaðssetningunni.

Aðspurður sagði Oddur að það hefði verið “hrikalega skemmtilegt að keppa í Vitanum og það myndaðist góð liðsheild og keppnisandi í keppninni. Ég þekki nú sjávarútveginn þokkalega vel og hlakka ég virkilega mikið til að heimsækja stærstu sjávarútvegssýningu í heimi.”

Oddur mun halda ásamt liði sínu til Boston eftir um hálfan mánuð en sýningin Seefood Expo fer fram dagana 10-12. mars. Við óskum honum og teymi hans góðs gengis!