Grænfánaafhending

Grænfáni var afhentur Verkmenntaskóla Austurlands í dag með formlegri athöfn. Guðrún Schmidt afhenti fánann fyrir hönd Landverndar. Innan skólans hefur verið starfandi umhverfisnefnd frá haustinu 2016 en þá var skólinn skráður í verkefnið skólar á grænni grein og stefnan tekin á Grænfána. 

Rebekka Rut Svansdóttir, formaður NIVA, nemendafélags VA stýrði athöfninni. Bergur Ágústsson, fulltrúi nemenda í umhverfisnefnd, sagði frá ferli verkefnisins innan skólans. Í ávarpi sínu nefndi Bergur sérstaklega mikilvægi þess að nemendur væru framtíðin og þyrftu að vera meðvitaðir um það að vernda umhverfið og leggja sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni. Komandi kynslóðir ættu að geta notið þess sama og við gerum í dag. 

Við athöfnina fluttu nemendur úr listaaakademíu VA tvö lög úr söngleiknum ,,Mamma Mia" sem þeir eru að sýna þessa dagana í Egilsbúð. Rebekka Rut hvatti alla sem ekki hafa séð sýninguna til að mæta.

Er óhætt að segja að við í VA séum afar stolt af hafa hlotið Grænfánann og stefnum ótrauð áfram með umhverfisfræðslu og vernd að leiðarljósi.