Hæfileikarnir sýndir um helgina

Nemendur í listaakademíu Verkmenntaskóla Austurlands munu sýna frumsamið leikrit næstkomandi helgi. Leikritið heitir Hæfileikarnir og er samið af leikurum sýningarinnar og leikstjóranum Sigrúnu Sól Ólafsdóttur. Fyrrum liðsmenn Dusilmenna sjá um hljóðheim sýningarinnar.

Auk þess að semja sýninguna sjá nemendur um allt sem viðkemur því að setja upp leiksýningu með dyggri aðstoð starfsfólks VA. Það er því gríðarlega góð reynsla sem þau öðlast við svona uppsetningu. Nemendum í 10. bekk í grunnskólum Fjarðabyggðar bauðst að taka þátt í starfi listaakademíunnar og fá einingar fyrir sem nýtast þeim þegar þau fara í framhaldsskóla.

Margrét Perla Kolka Leifsdóttir kennari listaakademíunnar segir að það hafi verið ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með ferlinu og sjá sýninguna verða til. Nemendur byrjuðu á því að skapa karakterana sína sjálf undir handleiðslu Sigrúnar leikstjóra og heiminn sem leikritið gerist í. Í kjölfarið á því varð söguþráðurinn og textinn til og hefur hann verið í sífelldri þróun allt æfingaferlið.

„Hæfileikarnir er ólík flestum leiksýningum sem settar hafa verið upp undanfarin ár því þetta er hvorki söngleikur né barnaleikrit. Sýningin er ekki bönnuð börnum en mjög ung börn munu ekki skilja söguþráðinn vel“ segir Perla. Hún hvetur Austfirðinga til að fjölmenna á þessa skemmtilegu sýningu.

Sýningarnar eru í Egilsbúð í Neskaupstað og verða laugardaginn 27.apríl, sunnudaginn 28. apríl og mánudaginn 29. apríl kl. 20.