Haldið í skiptinám til Danmerkur

Þrír nemendur úr VA munu eyða næstu fjórum mánuðum í skiptinámi við Mercantec skólann í Viborg. Dvölin er hluti af Erasmus+ verkefninu Nám og þjálfun - Efling starfsnáms við VA með evrópsku samstarfi II. Nemendurnir eru systurnar Halldóra Marín og Rebekka Rut Svansdætur og Þórir Snær Sigurðsson. Halldóra og Rebekka útskrifuðust af nýsköpunar- og tækibraut síðastliðið vor og Þórir stundar nám á þeirri braut. Í skiptináminu munu þau leggja stund á nám af svipuðum toga þar sem forritun, hönnun og rafmagnsfræði eru í aðalhlutverki. Þau munu dvelja á heimavist skólans meðan á náminu stendur.

Segja má að ferðin hafi hafist á Egilsstaðaflugvelli á laugardagskvöld. Krakkarnir voru með seinni skipunum á völlinn og má segja að Birgir kennari, sem fór með þeim út hafi verið orðinn ansi stressaður þegar aðeins fimmtán mínútur voru í að flugvélin ætti að hefja sig á loft. En þau komu og voru staðráðin í að læra af þessu og vera tímanlega morguninn eftir þegar halda átti áfram áleiðis til Kaupmannahafnar. Það stóðst enda voru krakkarnir mættir á Keflavíkurflugvöll töluvert á undan Birgi sem þó var mættur á réttum tíma. Eftir að hafa þrætt fríhöfnina tók tæplega þriggja tíma flugferð við og þaðan lestarferð á aðallestarstöð Danmerkur, Hovedbanegården. Þá tók við stutt stopp meðan beðið var eftir lest þvert yfir Danmörku til Viborgar. Töskurnar voru settar í geymslu á lestarstöðinni og leitað var að mat. Eftir stutta leit í sólinni í Kaupmannahöfn fannst fínasta kaffihús þar sem veitingarnar voru reyndar ekkert frábærar. Rétt fyrir klukkan fjögur að staðartíma hófst lestarferðin sem átti að taka fjórar klukkustundir. Eftir að hafa þrætt hvern bæinn á fætur öðrum, séð ótal mörg tré og kornakra var loks komið til Viborgar rétt fyrir klukkan átta. Þá var rúmlega hálfur sólarhringur frá því að ferðalagið hófst um morguninn. Á lestarstöðinni í Viborg tók Karsten, tengiliður okkar í Viborg, á móti hópnum. Hann sýndi okkur það helsta í bænum á leið okkar á heimavistina. Þegar þangað var komið var tékkað inn á herbergin og síðan rölt í næstu búð til að finna eitthvað að snæða. Það hafðist og þreyttir ferðalangar lögðust snemma til hvílu enda átti fyrsti skóladagurinn að byrja klukkan átta næsta morgun.

Í dag hófst skólinn þar sem nemendurnir fóru í tíma í forritun. Þau áttu að fylgja hinum nemendunum og í ljós kom að undirbúningur þeirra í VA hafði verið nokkuð góður þar sem þau virtust vera á svipuðum stað. Kennslan fór fram á dönsku og líklega var erfiðara að fylgja henni eftir en forrituninni. Það mun þó koma fljótt og þegar þau snúa aftur í desember munu þau án efa verða altalandi á dönsku.

Fréttir munu verða fluttar af hópnum í gegnum dvalartíma þeirra og auk þess munu þau verða með Snapchat þar sem hægt verður að fylgjast með þeim.