Haustganga og nýnemar boðnir velkomnir

Í dag var farið í hina árlegu haustgöngu VA í einstakri veðurblíðu. Gengið var á Lolla sem er fallegur tindur í sunnanverðum fjallahring Norðfjarðar. Einnig var gengið með Norðfjarðaránni. Þegar göngufólk, nemendur og starfsfólk, skilaði sér aftur í skólann var tekið á móti þeim með grillveislu við fótboltavöllinn sem er við hlið skólans. Var veislan ekki síst haldin til að fagna nýnemum við skólann en hefð er fyrir slíkum nýnemadegi í VA.

Nemendur og starfsfólk skellti sér í sápubolta sem kætti bæði keppendur og áhorfendur. Einnig voru tilkynnt úrslit í kosningu til nemendaráðs en í vikunni hafa kosningarnar verið áberandi og frambjóðendur gripið til ýmissa ráða til að kynna sig og afla atkvæða.

Var grillað á Stefánspalli sem byggður var við fótboltavöllinn í sumar til minningar um Stefán Má Guðmundsson, kennara við VA og formann íþróttafélagsins Þróttar í Neskaupstað. Smíði pallsins var að frumkvæði samkennara og nemenda Stefáns Más heitins og var sannkallað samfélagsverkefni þar sem margir lögðu hönd á plóg. 

Hér má sjá myndir frá deginum