Hleðslustöðvar fyrir rafbíla

Verkmenntaskóli Austurlands hefur undanfarin ár tekið þátt í verkefninu Græn skref en það er verkefni fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Verkefnið er unnið undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar og hefur Verkmenntaskólinn lokið innleiðingu á fyrstu tveimur skrefunum er alls eru þau fimm. Áætlað er að innleiðingu allra skrefanna ljúki fyrir lok skólaársins.

Það hefur verið ráðist í ýmis verkefni samfara þessu, meðal þeirra eru að umhverfisfræðsla hefur verið aukin meðal nemenda og starfsfólks, útbúnir hafa verið samgöngusamningar, farið hefur verið yfir hreinsiefnanotkun ásamt því að sett hefur verið stefna og útbúin viðmið til að vinna eftir. Eitt verkefnanna er að settar hafa verið upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla við skólann. Þær nýtast starfsfólki, nemendum og gestum en auk þess eru þær opnar almenningi. Hleðslustöðvarnar eru hluti af kerfi Ísorku og hægt er að nýta þær í gegnum smáforrit Ísorku eða með sérstökum lykli.

Í síðustu viku var óformleg vígsla á stöðvunum eins og sjá má á myndinni.