Norðfirðingurinn Freyja Karín Þorvarðardóttir stundaði nám við VA áður en hún fluttist á höfuðborgarsvæðið til þess að spila knattspyrnu með Þrótti Reykjavík. Samhliða kláraði hún stúdentspróf við Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Áhugi Freyju á VA kviknaði þegar skólinn var kynntur fyrir henni og bekknum hennar þegar hún var í grunnskóla. Það sem skipti mestu máli í hennar huga var fjölbreytileikinn á námi og hversu nálægt skólinn var hennar umhverfi. Orðspor skólans var gott og hún gat valið að vera á íþróttaafrekssviði á opinni stúdentsbraut sem gerði henni kleift að stunda íþróttina sína af fullum krafti og finna hvar áhugasvið sitt lægi. Eða eins og hún segir: „Íþróttaakademían var líka stór partur af því að ég valdi skólann svo að ég gæti verið á fullu í fótboltanum”.
Það sem stendur upp úr í skólagöngunni var fjölbreytt og skemmtilegt félagslíf meðan það voru ekki samkomutakmarkanir vegna Covid-19. Skemmtilegar árshátíðir, skíðaferð og oft uppbrot á kennslu, nemendafélagið var öflugt og það skipulagði oft eitthvað skemmtilegt á kvöldin eins og bíó- eða spilakvöld.
Freyja telur að VA hafi gefið henni góðan grunn fyrir áframhaldandi nám, hún var á opinni stúdentsbraut þannig hún gat valið alls kyns áfanga til að prófa sig áfram og finna út hvað hún vildi gera í framhaldinu. Vinnustofukerfið kom henni mjög vel þar sem hún náði að klára heimavinnuna sína og var því laus að mestu leyti við heimavinnu. Einnig nefndi hún að einn af helstu kostum skólans væru hversu þétt skólinn og starfsfólkið stóð við bakið á henni meðan á skólagöngu stóð.
Að lokum var Freyja beðin um að koma með heilræði til þeirra sem eru að velja sér nám: „Velja þann skóla sem ykkur langar að fara í og velja þá áfanga sem vekja áhuga ykkar. Síðan eftir framhaldsskóla þá er ekkert stress að finna út hvað ykkur langar að mennta ykkur í, finnið bara það sem ykkur finnst skemmtilegt og njótið að gera.“