Jafnlaunavottun skólans endurnýjuð

Verkmenntaskóli Austurlands hlaut jafnlaunavottun árið 2020 til þriggja ára. Á dögunum fór því fram endurvottun á jafnlaunakerfi skólans og í kjölfarið var það vottað að kerfið uppfyllir áfram þær kröfur sem settar eru.

Jafnlaunavottun þýðir að skólinn hefur komið upp kerfi sem mætir kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST85:2012. Jafnlaunastaðallinn er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi og á grundvelli jafnlaunastaðalsins geta fyrirtæki og stofnanir fengið jafnlaunavottun. Með þessu hefur VA komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggja á að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Frekari upplýsingar um jafnlaunavottun má finna á heimasíða Jafnréttisstofu.

Birgir Jónsson, gæðastjóri, heldur utan um jafnlaunakerfið og vottunaraðilinn iCert hefur metið hvort skilyrði staðalsins séu uppfyllt og var það staðfest þann 10. mars sl. Vottunin gildir í þrjú ár en eftirlitsúttektir fara fram einu sinni á ári og svo heildarúttekt í lok gildistímans.