Jafnréttisvika 2022

Í síðustu viku var mjög vel heppnuð jafnréttisvika. Var þetta í fyrsta sinn sem slík vika er haldin í skólanum. Dagskráin átti að hefjast á mánudeginum en veður setti strik í reikninginn og var enginn skóli þann dag. Hófst því vikan fyrir alvöru á þriðjudeginum þar sem nemendum var smalað í stofur þar sem horft var á heimildamyndina Disclosure en myndin fjallar um birtingarmyndir transfólks í sjónvarpsefni sem er nánast eingöngu neikvæðar eða fullar af rangfærslum. Myndin vakti mikla athygli enda sýnir hún vel hvaða áhrif Hollywood hefur haft á hugmyndir okkar um transfólk. Í kjölfarið á sýningunni sköpuðust miklar umræður á meðal nemenda um efni myndarinnar sem teygði sig yfir í kennslustundir dagsins.

Á miðvikudeginum gátu nemendur valið um tvenns konar vinnustofur, annars vegar vinnustofu um kynferðiseinelti sem Sunna Karen hjúkrunarfræðingur og kennari á sjúkraliðabraut hafði yfirumsjón með og hins vegar vinnustofu þar sem sjónum var beint að því hvernig hægt væri að skreyta húsnæði skólans. Voru vinnustofurnar afar vel heppnaðar og er stefnt að því að setja saman hóp til þess að vinna í skreytingum innan skólans á Kærleiksdögum í mars ásamt því að ákveðið var að vinna meira með kynferðiseinelti í vikunni á eftir.

Á fimmtudeginum hlýddu nemendur á fyrirlestur Ungmennaráðs UN women. Í fyrirlestrinum var komið inn á starf samtakanna og hversu mikilvægt það er til stuðnings konum um allan heim. Á starfsmannafundi í lok dags fékk starfsfólk fræðslu um hinsegin mál. Anna Margrét Arnarsdóttir sá um fræðsluna þar sem farið var yfir helstu hugtök og hvað er mikilvægt að hafa í huga þegar unnið er með hinsegin nemendum.

Á föstudeginum var kynusladagur þar sem starfsfólk og nemendur voru hvattir til þess að ögra hefðbundnum normum. Mátti sjá merki um það á förðun og klæðaburði eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Einnig var nemendum sýnt myndband frá hópnum Öfgum þar sem nemendur voru hvattir til þess að láta jafnréttismál sig varða til þess að gera samfélagið betra. Um var að ræða mjög sterk skilaboð.

Á mánudaginn hélt síðan vikan áfram með því að nemendum var sýnt myndband um kynferðiseinelti sem gert var af Sunnu Karen sem fjallaði um málefnið í vinnustofu miðvikudagsins. Í kjölfarið svöruðu nemendur könnun um efni myndbandsins.

Jafnréttisvikan var mjög vel heppnuð og er starfsfólki og nemendum þakkað fyrir sitt framlag í henni. Hún er komin til að vera!