Lætur staðar numið eftir 28 ára starf

Eftir 28 ár í starfi við Verkmenntaskóla Austurlands lét Gunnar Sveinbjörn Ólafsson af störfum síðastliðið vor vegna aldurs. Gunnar tók til starfa við skólann í ágúst árið 1997 sem aðstoðarkennari í stærðfræði. Það má með sanni segja að Gunnar hefur alla tíð látið sig skólamálin í sinni víðustu mynd varða og verið mikil gæfa fyrir VA að hafa hann í starfi og hefur hann gegnt hinum ýmsu störfum innan skólans.

Lengst af hefur Gunnar sinnt kennslu í stærðfræði og raungreinum (jarðfræði, líffræði, landafræði, eðlis- og efnafræði og stjörnufræði). Einnig kenndi hann um tíma ensku og lyfhrifafræði sem lengi vel var kennd á sjúkraliðabraut skólans. Þá sinnti hann um tíma starfi námsráðgjafa og starfi áfangastjóra og hefur því komið víða við innan veggja skólans. Fyrir rúmlega 10 árum hófst innleiðing á gæðakerfi við VA og hefur Gunnar fylgt eftir vinnu við innleiðingu þess m.a. með setu í gæðaráði skólans allt fram á síðasta starfsdag. Gunnar hefur verið farsæll í sínum störfum, vel liðinn meðal starfsfólks og nemenda en eins og gefur að skilja eftir 28 ár í starfi hefur hann komið að menntun nemenda í hundraðatali.

Við þökkum Gunnari innilega fyrir sitt framlag til skólastarfsins í gegnum árin og óskum honum velfarnaðar í hverju því sem hann mun taka sér fyrir hendur.