Líf og fjör í vikunni

Það má með sanni segja að það sé mikið um að vera þessa dagana innan veggja skólans. 

Á þriðjudag 25. nóvember er námsmatsdagur samkvæmt skóladagatali og þriðju og síðustu umsagnir nemenda verða birtar í síðasta lagi á miðvikudagsmorgun inn á INNU. Hvetjum nemendur og forsjáraðila til að fylgjast með því nú þegar líða fer á lokadaga annarinnar. Síðasti hefðbundni kennsludagur er fimmtudagurinn 11. desember en þá taka við námsmatsdagar frá 12. - 19. desember. Skipulag námsmatsdaganna í desember má finna hér en nemendur eru þó alltaf beðnir um að fylgjast sérstaklega með kennsluvef í sínum áföngum. 

Miðvikudaginn 26. nóvember verður haldinn skólafundur kl. 13:25-14:05. Þar koma nemendur og starfsfólk saman í matsalnum og ræða nýju skólasóknarreglurnar og félagslífið. Smávegis vinna hefur átt sér stað í haust þar sem verið er að uppfæra skólasóknarreglurnar og er skólafundurinn hugsaður sem vettvangur nemenda skólans til að koma sínum ábendingum á framfæri áður en þær verða teknar til samþykktar. 

Nemendafélag VA hefur skorað á starfsfólk skólans í íþróttakeppni eftir hádegi á fimmtudag 27. nóvember þar sem keppt verður í knattspyrnu, blaki og körfubolta svo það verður líf og fjör í íþróttahúsinu þann dag milli kl. 12:40 - 14:00. 
Seinna þennan dag, eða milli kl. 17-19 stendur umhverfisnefnd skólans fyrir saumadag í matsalnum sem öllum er boðið á. Þar verða piparkökur, kakó og jólatónlist á meðan gestir og gangandi sauma jólagjafapoka og stuðla þar með að umhverfisvænni lausnum um jólin. Einhverjar saumavélar verða á staðnum en þau sem hafa tök á eru hvött til að koma með vélar og efni sem hægt er að nota. 

Síðasti viðburðurinn í vikunni mun svo eiga sér stað í matsalnum á föstudaginn milli kl. 11:30 - 12:10 þar sem nemendur og starfsfólk skólans munu fá fræðslu um sorg, áföll og bjargráð við missi frá Sorgarmiðstöðinni sem er hér á flakki um Austurlandið á vegum Áfallateymis Austurlands að fjalla um sorg og áföll í nánd jólanna.