„Lítill og persónulegur skóli þar sem þú færð þann stuðning sem þú þarft“

Upplestur á frétt.

Tinna Rut Þórarinsdóttir útskrifaðist af félagsvísindabraut vorið 2019. Hún æfði og keppti í blaki með meistaraflokki Þróttar samhliða náminu og hefur leikið landsleiki, bæði í unglingalandsliðum og með A-landsliðinu. Á dögunum skrifaði Tinna undir samning við sænska úrvalsdeildarliðið Lindesberg.

Áhugi Tinnu á blakinu hafði nánast alltaf verið til staðar. Hún byrjaði að æfa blak þegar hún var 6 ára gömul en var líka í öðrum íþróttum eins og sundi, skíðum og frjálsum en blakið var alltaf númer eitt. „Um það leyti sem ég byrjaði í framhaldskóla fór blakið að verða meira alvöru, og þá var stóra markmiðið alltaf að spila með landsliðinu og reyna að komast eitthvað út að spila.“

Blakið átti stóran þátt í því að Tinna valdi að dvelja áfram í heimabyggð þegar grunnskólanáminu lauk en auk þess heillaði námið í skólanum. „Ástæðan fyrir því að ég fór í VA er sú að ég vildi vera lengur heima, og ég vildi alltaf vera einhverstaðar þar sem var gott blakstarf, og á þessum tíma voru mjög góðir þjálfarar hjá Þrótti Nes og liðinu var að ganga vel, þá fannst mér engin ástæða til þess að fara einhvert annað í skóla. Svo var skólinn sjálfur líka heillandi og ég hafði heyrt góða hluti þaðan”.

Eins og áður sagði lauk Tinna námi af félagsvísindabraut og hafði markað þá braut strax í upphafi námsins. Hún hafði þó ekki hugmynd um hvað sig langaði til að læra en fögin á félagsvísindabrautinni hafi verið meira fyrir hana heldur en annað.

Þegar námið hófst gat verið strembið að samtvinna afreksíþróttirnar og námið. „Ef ég á að segja eins og er þá tók ég blakið alltaf fram yfir skólann, tókst samt að klára stúdentinn, þurfti oft að leggja mikið á mig og fékk góðan stuðning frá kennurunum og námsráðgjafa”. Hún hafi oft þurft að fá leyfi vegna keppnisferða og því hafi alltaf verið mætt með miklum skilningi. Kennararnir voru sveigjanlegir og sýndu íþróttaiðkuninni skilning og áhuga. Þetta nefnir Tinna sem einn helsta kost VA, skólinn sé „lítill og persónulegur skóli þar sem þú færð þann stuðning sem þú þarft“.

Þegar horfið er til baka til námsáranna var ýmislegt skemmtilegt gert. Það fyrsta sem flýgur í hugann er vettvangsferð sem farið var í til Reykjavíkur. Þar skoðuðu nemendur Seðlabanka Íslands, Alþingishúsið, leikskóla og fleira skemmtilegt.

Í framtíðinni stefnir Tinna að því að samtvinna íþróttaáhugann og áframhaldandi nám og stefnir á að mennta sig frekar í einhverju tengdu íþróttum og heilsu s.s. íþróttafræði, sjúkraþjálfun eða næringarfræði.

Hún er afar vel undirbúin fyrir áframhaldandi nám eftir veruna í VA og nefnir íþróttaakademíuna sérstaklega. „Ég var til dæmis í íþróttaakademíunni, lærði allskonar þar sem gagnast mér vel.” Það verður spennandi að fylgjast með Tinnu á íþróttasviðinu og í því námi sem hún mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni.

Í lokin er viðeigandi að senda heilræði. Hvaða heilræði vill Tinna senda: „Engin markmið eru of stór, bæði í námi og í íþróttum, maður verður bara að leggja hart að sér og vera með minni markmið sem leiða mann í rétta átt.”