Magnaður árangur

Óhætt er að segja að síðustu vikur hafi verið viðburðaríkar hjá Freyju Karín Þorvarðardóttur, knattspyrnukonu og nemanda á opinni stúdentsbraut í skólanum.

Þegar keppni lauk í 2. deild kvenna var Freyja markahæsti leikmaður hennar ásamt liðsfélaga sínum með 18 mörk í 12 leikjum. Sameiginlegt lið Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis endaði í toppsæti deildarkeppninnar og þá tók úrslitakeppni við. Í undanúrslitunum sló liðið Fram út 4-1 og skoraði Freyja eitt markanna í einvíginu. Með því var tryggt að liðið var komið upp í 1. deild næsta sumar. Þó var úrslitaleikurinn eftir þar sem att var kappi við Fjölni. Þar kom sigur í hús, 3-1 og gerði Freyja öll mörkin.

Í dag var svo tilkynnt val þjálfara og fyrirliða liðanna í 2. deild á liði ársins. Freyja var í liðinu og ekki nóg með það heldur var hún bæði valin besti og efnilegasti leikmaður deildarinnar. Er það í fyrsta sinn sem báðir þessir titlar fara til sama leikmanns.

Þessi frábæri árangur í sumar varð til þess að Freyja var valin í u-19 ára landslið Íslands sem keppti í undankeppi Evrópumótsins fyrr í september. Þar lék Freyja þrjá leiki og gerði sér lítið fyrir og skoraði eitt mark í 2-0 sigri gegn Serbíu.

Freyja var í viðtali í hlaðvarpinu Heimavellinum í dag. Þar fór hún yfir sumarið, landsliðið og framtíðina. Aðspurð um hvað framtíðin beri í skauti sér sagði Freyja: “Ég er ekki ennþá búin að ákveða hvað ég vil gera.”

Við óskum Freyju innilega til hamingju með frábæran árangur og hlökkum til að fylgjast áfram með henni!