Námskeið í söng og leik

Nemendum í VA og 10. bekkjum grunnskóla Fjarðabyggðar, sem áhuga hafa á að starfa í listaakademíu VA, var boðið upp á námskeið í söng og leik í nóvember.

Kennari á söngnámskeiðinu var Margrét Kolka Hlöðversdóttir sem hefur 6 ára söngnám á bakinu auk rúmlega áratugs reynslu í sviðslistum. Margrét er fyrrverandi nemandi skólans og tók þátt í uppsetningum á söngleikjum listaakademíunnar og Leikfélagsins Djúpsins auk Leikfélags Norðfjarðar, Nesskóla, FÍH og MÍT. Þar að auki hefur hún komið fram á fjölmörgum tónleikum í gegnum árin og unnið sem söngkona samhliða öðrum verkefnum.

Að námskeiðinu loknu fengu nemendur sem þess óskuðu einkasöngtíma í kjölfarið. Margrét segir að reynsla sín af leiklistar- og söngverkefnum sínum á unglingsárum sínum í Neskaupstað hafi veitt sér frábæra reynslu inn í frekara nám og störf á þessu sviði auk þess sem að leiklistarkennslan hafi gagnast henni í öðrum störfum.

Leiklistarnámskeiðið kenndi Arndís Bára Pétursdóttir grunnskólakennari við Eskifjarðarskóla en hún hefur áður haldið slík námskeið á vegum listaakademíunnar. Arndís Bára er með B.ed. og M.ed. gráðu í kennslu- og menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri. Hún segir að vinna sín í grunnskólanum sé án efa sitt stærsta leiklistahlutverk þar sem hún fær að standa á litla sviðinu alla daga, með ekkert handrit og fullt af grímum. Hún hefur kennt leiklist frá árinu 2017 og hefur sérstakan áhuga á spuna, fáránleika og leikhúsinu sjálfu sem fyrirbæri. Hún tók þátt í tveimur sýningum með Leikfélagi Menntaskólans á Egilsstöðum.

Kennari listaakademíunnar, Margrét Perla Kolka Leifsdóttir, segir það dýrmætt fyrir nemendur að fá slíka leiðsögn sem muni gagnast þeim vel í lífinu. Auk þess ætli listaakademían að setja upp leikrit á vordögum og er þetta nauðsynlegur undirbúningur fyrir það.

Það eru velgjörðarmenn listaakademíunnar sem gera skólanum kleift að bjóða upp á svona námskeið en styrktarsjóður Egils rauða veitti rausnarlegan styrk á dögunum sem meðal annars verður nýttur í þessi námskeið.