Hljómsveitin Chögma komst í úrslit Músíktilrauna á fjórða og síðasta undankvöldinu síðastliðið miðvikudagskvöld. Aðeins 10 hljómsveitir komast áfram í úrslitin og má því með sanni segja að um glæsilegan árangur sé að ræða. Hljómsveitin er skipuð þremur núverandi nemendum VA. Það eru Jakob Kristjánsson gítarleikari, Elísabet Mörk Ívarsdóttir söngvari og Jónatan Emil Sigþórsson trommuleikari. Hinir meðlimir hljómsveitarinnar eru Stefán Ingi Ingvarsson bassaleikari og Kári Kresfelder Haraldsson hljómborðsleikari, en Kári útskrifaðist úr húsasmíði frá VA síðastliðið vor.
Hljómsveitin var valin áfram af dómnefnd og hefur hlotið mikla athygli í kjölfarið eins og lesa má hér á vef Austurfréttar. Chögma mun keppa í úrslitunum á morgun, laugardaginn 16. mars kl. 17:00 í Norðurljósasal Hörpu. Verður keppninni útvarpað í beinni á Rás2 og verður einnig í beinni útsendingu á Rúv2.
Við erum afar stolt af okkar fólki og hvetjum þau til enn frekari dáða!