Nemendur VA styðja Stígamót

Kærleiksdagar VA 2019 voru haldnir dagana 6. – 7. mars og lauk þeim með vel heppnaðri árshátíð.

Markmið daganna var tvíþætt. Annars vegar að hafa gaman og þjappa nemendum saman. Hins vegar að láta gott af okkur að leiða og safna fé til góðs málefnis.

Fyrir valinu varð að safna fé til styrktar Stígamótum, enda hafa Stígamót stutt við bakið á nemendum skólans.

Fé var aflað annars vegar með áskoruninni #plankinn 2019 en þá plönkuðu nemendur og starfsfólk stanslaust í tvær klukkustundir og söfnuðu áheitum fyrir þessa áskorun (sjá mynd í viðhengi). Hins vegar var haldið góðgerðarhappdrætti og var dregið úr seldum miðum á árshátíð skólans sem haldin var í lok Góðgerðardaganna.

Alls söfnuðust 110.000 krónur og hefur Stígamótum verið færð þessi gjöf frá nemendum VA.

Þessa dagana blása Stígamót í annað sinn til átaksins Sjúkást sem fjallar um heilbrigð sambönd, óheilbrigð sambönd og ofbeldisfull sambönd. Markmið Sjúkást er að fræða ungmenni um mörk og samþykki með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi. Slagorð átaksins í ár er: „Ég virði mín mörk og þín“.

Smellið á myndina hér að ofan til að skoða vefsíðu átaksverkefnisins Sjúkást.