Rafmagnaður blakari í fjölbreyttu námi

Upplestur á frétt.

Fyrr í vetur stóðu fjórtán iðn- og starfsnámsskólar á Íslandi sameiginlega að útgáfu blaðsins 2020, þar sem gerð er grein fyrir starfsnámi frá ýmsum hliðum en í þessum fjórtán skólum eru hátt í sextíu námsbrautir. Í haus blaðsins segir eftirfarandi: Nafn blaðsins vísar í sameiginlegt markmið skólanna, skýrt og mælanlegt markmið, að 20% grunnskólanemenda skrái sig í iðn- og verknám frá og með árinu 2020.

2020 var dreift til foreldra og forráðamanna allra nemenda í 8., 9. og 10. bekk á landinu, í samtals um 12.000 eintökum.

Í blaðinu var m.a. viðtal við Hlyn Karlsson sem er að flétta saman nám í rafvirkjun og nám til stúdentsprófs á áhugaverðan hátt.

Viðtalið má nálgast hér:

Hlynur Karlsson er 17 ára nemandi við Verkmenntaskóla Austurlands. Hann hefur valið sér heldur óhefðbundna leið í náminu þar sem hann tekur nám í rafvirkjun og viðbótarnám til stúdentsprófs með áherslu á raungreinar samhliða. Hugmyndin hafði kviknað um sumarið, áður en hann hóf nám í VA en varð ekki að alvöru fyrr en hann hafði lokið einni önn á náttúruvísindabraut. “Þá fattaði ég að mig langaði frekar að fara í það heldur en bóknámið. Mig langaði til að læra rafmagnsfræði og hafa þá stúdentinn með”. Hann settist því niður með móður sinni og kortlagði hvernig væri hægt að gera þetta. Því næst hitti hann náms- og starfsráðgjafa og í kjölfarið hófst námið. Í VA er bæði hægt að taka bóknám og verknám og því auðvelt fyrir Hlyn að flétta námið saman. Í raun tefur þetta hann ekkert í námi en hann nefnir að ef hann hefði byrjað strax á báðum brautum þá hefði hann getað tekið þetta ögn hraðar.

“Langaði til að læra rafmagnsfræði, hafa þá stúdentinn með”

Hlynur viðurkennir að fólkið í kringum hann hafi verið ögn hissa í byrjun að hann vildi skipta yfir í verknám. Það er þó auðvelt að sjá kostina. Hann vildi ekki binda sig við annað hvort vegna þess að ef hann tæki bæði myndi hann hafa fleiri möguleika í námi og starfi. Það sem er í uppáhaldi hjá honum í náminu er stærðfræði sem nýtist beggja megin. Hann nefnir einnig verklegu fögin í rafvirkjuninni og líffræði og eðlisfræði af stúdentsbrautinni.

“Klára alla vega námið fyrst”

Framtíðin er óráðin hjá Hlyni enda nægur tími til þess að ákveða sig. Hann nefnir þó rafeindavirkjun, rafmagnsfræði, tæknifræði og jafnvel að fara að vinna. Það er ekkert sérstakt starf sem heillar hann, hann ætlar að klára námið fyrst og hugsa svo. Allir möguleikar verði opnir.

“Auðveldara að grípa þetta og fara í það”

Námið liggur svo sannarlega fyrir honum og finnst honum hvorug brautin neitt sérstaklega erfið. Sumt sé þó erfiðara en annað en allt mjög skemmtilegt, sérstaklega verklegu fögin þar sem hann fær að gera eitthvað og fikta. Það skipti einnig máli fyrir hann að námið væri í boði í heimabyggð, það væri stór kostur að það sé í boði og minni líkur á að hann hefði farið í það ef það hefði ekki verið.

“Ég myndi mæla með rafinu, það er gaman”

Þegar Hlynur er beðinn um ráðleggingar til grunnskólanema mælir hann heils hugsar með rafvirkjuninni og krakkarnir eigi að láta vaða í verknám liggi áhuginn þar. Þó sé alltaf hægt að skipta ef hlutirnir spilist þannig. “Ef þig langar til að skipta um nám þegar þú ert hálfnaður með annað þá er það allt í lagi, nægur tími til að læra, aldrei of seint að byrja á einhverju nýju”.

Afreksíþróttamaður meðfram náminu

Meðfram náminu æfir Hlynur blak af kappi. Hann spilar með meistaraflokki Þróttar og hefur leikið reglulega með unglingalandsliðum. Í Neskaupstað, þar sem VA er staðsettur, er einmitt vagga blakíþróttarinnar og því ekki aðeins hægt að samtvinna námið heldur einnig stunda afreksíþróttir samhliða.