Samstarf Fjarðabyggðar og Verkmenntaskóla Austurlands tryggt næstu þrjú ár

Fyrr á skólaárinu fór verkefnið Verklegt val af stað en í verkefninu gátu nemendur úr 9. og 10. bekk í grunnskólum Fjarðabyggðar valið úr nokkrum iðn- og tæknigreinum í VA. Nemendurnir lögðu stund á tvær greinar í einu í alls átta skipti. Nú er orðið ljóst að verkefnið mun halda áfram næstu þrjú árin þar sem fjármagn til verkefnisins hefur verið tryggt.

Stuðingur við verkefnið kemur úr Mennta- og barnamálaráðuneytinu en Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, skrifuðu undir yfirlýsingu þess efnis þann 11. maí sl.

Verkefnið er gríðarlega mikilvægt þar sem töluverður skortur hefur verið á iðnmenntuðu fólki á Austurlandi um hríð og það meðal þess sem mörg iðnfyrirtæki á svæðinu hafa áhyggjur af til framtíðar og þar á meðal mörg þau stærstu í fjórðungnum.

Verkefnið gefur nemendum einnig færi á að átta sig betur á hvar áhugi þeirra liggur og fá jafnframt góða kynningu á verknámi í Verkmenntaskólanum.

Á myndinni má sjá þegar skrifað var undir yfirlýsinguna.