Skiptinemar frá Réunion eyju í Indlandshafi

Hér má sjá þær Steffy og Inua með boli sem þær bjuggu til í Fablab
Hér má sjá þær Steffy og Inua með boli sem þær bjuggu til í Fablab

Nú í janúar tók Verkmenntaskóli Austurlands á móti tveimur skiptinemum, þeim Inua og Steffy, 17 ára gömlum stúlkum sem dvöldu við skólann í tveggja vikna skiptinámi. Þær komu alla leið frá Réunion-eyju í Indlandshafi, sem er franskt yfirráðasvæði og þannig hluti af Erasmus+ samstarfinu. Markmið heimsóknarinnar var að kynnast ólíku skóla- og menningarumhverfi og má með sanni segja að þær hafi séð og upplifað ýmsilegt á dvöl sinni hér.

Inua og fjölskylda hennar höfðu samband í nóvember 2024 til að kanna möguleikann á heimsókn í VA árið 2026. Þegar þær stungu hins vegar upp á heimsókn í janúar ráðlagði Petra, verkefnastjóri erlendra samskipta, þeim að skoða málið vandlega þar sem aðstæður hér á landi geta verið misjafnar á þeim tíma árs, bæði hvað varðar veður og ferðalög. Einmitt þetta var þó helsta ástæða janúarheimsóknarinnar, þar sem vinkonurnar vildu upplifa snjó og vetraraðstæður.

Þrátt fyrir að ferðatíminn væri krefjandi vegna vetraraðstæðna, þar sem þær urðu m.a. veðurtepptar í Reykjavík og Fagridalur lokaðist um tíma vegna snjóflóðahættu komust þær á áfangastað til gestafjölskyldna sinna í Neskaupstað um það bil sólahring á eftir áætlun þann 13. janúar s.l. 

Stúlkurnar fylgdu stundatöflu skólans og sóttu meðal annars tíma í fabLab, íslensku, ensku, stærðfræði, dönsku og félagsfræði svo eitthvað sé nefnt. Þær lýstu mikilli ánægju með andrúmsloftið í skólanum og voru einungis búnar að vera í skólanum í örfáar mínútur þegar þær bentu sérstaklega á hversu óformleg og jákvæð samskipti milli nemenda og starfsfólks væru, samanborið við það sem þær eiga að venjast í heimaskóla sínum.

Utan skóla fengu þær að sjá og upplifa ýmislegt, meðal annars fóru þær á Sveitablót þar sem þær fengu tækifæri til að smakka íslenskan mat. Þar stóð e.t.v. upp úr að smakka hákarl, sem þeim þótti hvorki sérstakur á bragðið né áferðina. Að kvöldi mánudagsins 19. janúar varð Inua vitni að einhverjum mögnuðustu norðurljósum sem sést hafa hérlendis í langan tíma eftir að kórónugos skall á jörðinni, sem gerði norðurljósaupplifunina einstaklega glæsilega með litríkum rauðum litum. Einnig stóð upp úr heimsókn í hreindýragarðinn, sem og að baða sig í Vök og í ísköldu Urriðavatni.

Verkmenntaskóli Austurlands hefur um árabil verið virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi í gegnum Erasmus+ og eiga nemendur skólans kost á að taka þátt í slíkum verkefnum. Þeir sem hafa áhuga á styttri eða lengri dvölum erlendis eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu skólans.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá dvöl þeirra Inua og Steffy á Íslandi, birtum með þeirra leyfi.