Skólasetning

Rétt í þessu var Verkmenntaskóli Austurlands settur í troðfullum fyrirlestrarsal skólans. 

Skólameistari, Lilja Guðný Jóhannesdóttir, ávarpaði nemendur og starfsfólk og bauð alla hjartanlega velkomna til starfa. Nýir nemendur voru sérstaklega boðnir velkomnir og hlökkum við afar mikið til að kynnast þeim í vetur. Lilja hóf hnitmiðaða ræðu sína á því að ræða hlutverk nemenda sem er fyrir utan að sinna námi og félagslífi að taka á móti nýjum nemendum þannig að öllum líðir vel.

Skólameistari fór einnig yfir starfsmannamál en í VA ríkir mikill stöðugleiki í starfsmannamálum sem sýnir hversu gott er að vinna í VA enda er skólinn fullur af frábæru starfsfólki og frábærum nemendum. Þó hafa nokkrir nýir starfsmenn bæst í hópinn fyrir skólaárið. Karen Ragnarsdóttir hefur tekið við sem aðstoðarskólameistari, Rósa Dögg Þórsdóttir mun kenna í hárgreiðslu, Birgir Jónsson er verkefnastjóri og kennari og Guðný Björg Guðlaugsdóttir mun hefja störf í lok ágúst sem náms- og starfsráðgjafi. Auk þess koma þeir Níels Atli Hjálmarsson og Hjörtur Elí Steindórsson inn sem stundakennarar í rafvirkjun.

Skólameistari ræddi um þau gleðitíðindi að aðsókn í skólann hefur aukist mjög síðustu misserin. Herbergi heimavistarinnar eru fullsetin í fyrsta skipti síðan elstu menn muna, a.m.k. man Bubbi húsvörður ekki eftir öðru eins. Skólameistari ræddi einnig um mikilvægi þess að allir störfuðu vel saman í skólanum. Allir geti eitthvað og ef við setjum okkur markmið þá náum við þeim með því að leggja okkur fram. Í því ljósi nefndi skólameistari að stærsta markmiði síðasta skólaárs, Grænfánanum, hefði verið náð með samstilltu átaki.

Stærsta markmið ársins er að efla félagslíf skólans og marka fleiri hefðir innan skólans. Á síðasta skólaári var skólafundur þar sem nemendur komu með hugmyndir varðandi félagslífið sem er vonast til að verði að hefðum. Má þar nefna endurvakningu austfirsku ólympíuleikanna en þeir verða haldnir í VA í lok september. Í framhaldi af umræðu um félagslífið nefndi skólameistari að á næstu dögum verði farið í að leita að framboðum í stjórn nemendafélagsins fyrir skólaárið. Stjórnin mun vinna með Petru Lind Sigurðardóttur, kennara að skipulagningu félagslífsins. Nemendur voru hvattir til þess að taka þátt í starfi félagsins og bjóða sig fram. Félagslífið er undir þátttöku nemenda komið.

Mikil stemning og gleði einkenndi skólasetninguna. Þegar skóli hafði verið settur komu umsjónarkennarar einn af öðrum upp til að sækja sína nemendur undir dúndrandi lófaklappi. Það er svo sannarlega lofandi fyrir komandi skólaár sem verður án efa gjöfult.