Skrifstofunemar frá Þýskalandi

Í síðustu viku voru tveir skrifstofunemar, þær Lena og Maren frá Þýskalandi, í starfsnámi hjá okkur í VA. Þær stöllur stunda nám sitt við skólann BBS 1 Goslar –Am Stadtgarten sem staðsettur er í bænum Goslar sem er 90 km sunnan við Hannover. Dvöl þessi er hluti af fjögurra vikna Erasmus+ dvöl á Íslandi þar sem þær fara í starfsnám við VA, Nesskóla, Íþróttamiðstöðina í Neskaupstað, Menningarstofnun Fjarðabyggðar, Safnahús Fjarðabyggðar og Brammer.

Lena og Maren fengu ýmis verkefni við skólann. Þær gerðu m.a. heimasíðu með upplýsingum fyrir aðra Erasmus+ nemendur sem koma síðar til skólans og unnu að kappi að undirbúningi Tæknidags fjölskyldunnar með heimsíðugerð, bæklingagerð, merkingum og öðrum verkefnum.

Heimaskóli þeirra Lenu og Maren í Goslar er einn af samstarfsskólum VA í Evrópu og er námsdvöl þeirra stýrt af VA. Á meðan á dvölinni stendur búa þær á heimavist skólans. Á vorönn 2019 er svo markmiðið að senda nemendur úr VA til skiptinámsdvalar í Goslar. 

Þær stöllur halda úti bloggi á meðan á dvöl þeirra hjá okkur stendur. 

Hér má sjá þær Lenu og Maren ásamt Bobbu áfangastjóra í kynningarbás VA á Tæknidegi fjölskyldunnar (smellið á myndina til að sjá hana stærri).