Staðnám áfram í VA

Heilir og sælir nemendur VA og forráðafólk

Tæplega hefur farið fram hjá neinum aukning Covid-19 smita undanfarna daga. Sóttvarnalæknir hefur vegna þessa talað fyrir grímunotkun og auknu fjarnámi í framhalds- og háskólum.

Enn sem komið er, er ekkert smit á Austurlandi og því dugar okkur í bili að halda okkur við sama skipulag og verið hefur frá því skólinn hófst.

Kennsla verður því áfram í staðnámi og heimavistin opin. Við verðum áfram með tvískipt í hádegismat, heimavist lokaða fyrir gestum og grímunotkun þar sem ekki er hægt að halda eins meters fjarlægð.

Þrátt fyrir að við þurfum ekki að gera breytingar hjá okkur eins og staðan er í dag hvet ég alla til að sýna aðgát og sinna vel einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Frá upphafi þessa faraldurs höfum við náð að hafa vaðið fyrir neðan okkur í VA og viljum við halda því áfram. Við þurfum alltaf að vera viðbúin fyrir breytingar sem geta átt sér stað með litlum fyrirvara. Því munum við nú hefja þjálfun allra nemenda í því fjarkennslukerfi sem við notum ef til fjarnáms kemur.

Munum að við erum öll almannavarnir og með samstilltu átaki förum við í gegnum þær áskoranir sem faraldurinn með sínum bylgjum færir okkur hverju sinni.

Kveðja, skólameistari