Starfs- og nýbúabrautir VA hlutu styrk

Foreldrafélag VA hlaut veglegan styrk úr Menningar- og styrktarsjóði SÚN nú á vordögum. Styrkurinn er ætlaður til að styðja við nám- og kennslu á starfsbraut og nýbúabraut skólans. Með styrkupphæðinni er ætlunin að efla tækjabúnað á brautunum en kennslan þar er einstaklingsmiðuð og mikil þörf á að nýta tæknina til að styðja við það starf. Fyrir styrkinn, sem var 600.000 krónur, mun foreldrafélagið kaupa Chromebook tölvur til að nýta á brautunum.

VA þakkar SÚN fyrir stuðning við nemendur skólans. Stuðningur sem þessi úr samfélagi skólans er gríðarlega mikilvægur, hvort sem er um að ræða fjárhagslegan stuðning eða stuðning við starf skólans.

Einnig hlýtur foreldrafélag VA þakkir fyrir frumkvæði sitt í þessu verkefni. Þess má geta að fráfarandi formaður foreldrafélags VA, Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir, hlaut í vor tilnefningu til viðurkenningarinnar Dugnaðarforkur Heimilis og skóla árið 2019 sem veitt eru af Heimili og skóla, landssamtökum foreldra. Sigga Þrúða hefur á undanförnum árum unnið afar ötult starf í foreldrafélagi skólans. Samstarf heimila og skóla er mjög mikilvægt á öllum skólastigum og eftirfylgni heimilis mikilvæg þegar nemendur stíga sín fyrstu skref innan framhaldsskólanum. Liður í því er þátttaka í skólastarfinu en  foreldrafélag VA á víða fulltrúa, s.s. í umhverfisnefnd, forvarnateymi og skólanefnd enda mikilvægt að rödd foreldra sé sterk í skólasamfélaginu.

Það er alltaf pláss fyrir fleiri í starfi foreldrafélagsins. Að sögn Siggu Þrúðu er starfið mikilvægt og gaman að koma að því en hún hefur einnig verið virk í starfi með forvarnateymi skólans. ,,Það er skemmtilegt að vita hvað um er að vera í skólastarfinu,” segir Sigga Þrúða, ,,og gott fyrir nemendur og starfsmenn skólans að finna stuðning frá foreldrum við starfið.”