Stúdent frá VA ver doktorsritgerð

Upplestur á frétt.

Stefán Þór Eysteinsson útskrifaðist af náttúrufræðibraut frá VA fyrir þrettán árum síðan, vorið 2006.

Að útskrift lokinni sneri Stefán til Bandaríkjanna þar sem hann lauk BA-prófi í líffræði árið 2011 frá Gonzaga University. Hann sneri svo aftur heim og lauk meistaragráðu í matvælafræði árið 2016 frá Háskóla Íslands og hóf doktorsnám í kjölfarið.

Miðvikudaginn 29. apríl nk. mun Stefán verja doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Eiginleikar rauðátu (Calanus finmarchicus) og nýtingarmöguleikar úr hliðarstraumum frá vinnslu uppsjávarfiska. Stefán hefur samhliða doktorsnáminu starfað sem sérfræðingur hjá Matís ohf. sem og sinnt kennslu og leiðbeinslu nemenda við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Athöfnin hefst kl. 13:30 og verður streymt hér.

En hvernig var ferðalagið að doktorsvörninni?

Þegar kom að því að velja háskólanám vissi Stefán alveg frá upphafi að áhuginn lægi á sviði náttúruvísinda en var ekki með það nákvæmlega á hreinu hvaða braut hann ætti að velja. Hann endaði á að klára grunnnám í líffræði en hafði áhuga á að prófa eitthvað annað í framhaldsnáminu. Hann hafði unnið í matvælaiðnaðinum hjá Síldarvinnslunni og síðan hjá Matís og það leiddi hann yfir í að prófa matvælafræðina. Stefán mælir með matvælafræðinni: „Matvælafræðin er alveg gríðarlega fjölbreytt og í raun mun fjölbreyttari en ég átti nokkurn tíma von á og mæli ég með henni fyrir alla“.

Þegar horfið er aftur til áranna í VA segir Stefán að undirbúningurinn fyrir frekara nám hafi verið mjög góður enda hafi hann haft „mjög góða og færa kennara sem höfðu mjög breiðan bakgrunn“. Kostirnir við VA eru skýrir í huga Stefáns þar sem námshópar voru ekki of stórir sem þýddi að aðgengið að kennurunum var mjög gott. Einnig hafi vinasambönd orðið til í gegnum öflugt félagslíf sem eru sterk enn þann dag í dag.

Segja má að ferill Stefáns sem vísindamanns hafi hafist fyrir alvöru í VA. Árið 2004 tók hann þátt, ásamt þeim Elísu Guðrúnu og Evu Maríu, í Landskeppni Ungra vísindamanna. Verkefnið þeirra bar heitið „Hasskötturinn“ og snerist um að skoða lyktarskyn katta og hvort hægt væri að temja þá til að nota lyktarskynið og þjálfa í leit að fíkniefnum. Notuðu þau aðferðir sálfræði og líffræði til að framkvæma rannsóknina. Gerðar voru tilraunir með tvo ketti, þar sem kettirnir voru settir, annar í einu, í þar til gerðan þjálfunarkassa og látnir leita að ákveðinni lykt. Lyktin kom af tepoka, sem vísindamennirnir höfðu komið fyrir í þjálfunarkassanum og þegar kettirnir höfðu fundið lyktina fengu þeir rækju í verðlaun. Báru þau sigur úr býtum í Landskeppninni og kepptu í Evrópukeppni Ungra vísindamanna í Dublin á Írlandi sama ár. Stefán segir þetta eina af bestu minningum sínum úr skólanum og það hafi verið heppni að fá að taka þátt í keppninni og að verkefnið hafi vakið mikla athygli.

Aðrar góðar minningar sem Stefán nefnir er frá tíma hans í stjórn nemendafélagsins þar sem hann fékk að vinna með mjög góðu fólki, t.a.m. hafi þau reynt að endurvekja busun, við mismikla hrifningu.

En hvaða skilaboð sendir Stefán nemendum: „Ég myndi ráðleggja þeim að vera opin fyrir nýjum hlutum og fara út fyrir kassann af og til“.

Við hvetjum alla til þess að fylgjast með doktorsvörninni hjá Stefáni á miðvikudag!