Styrkir veittir til iðnnáms

Kvika og Samtök iðnaðarins hafa gert með sér samning um stofnun Hvatningarsjóðs Kviku sem hefur það hlutverk að veita styrki til nema í iðn- og starfsnámi með það að markmiði að vekja athygli á mikilvægi náms og starfa á þessu sviði. 

Markmið með stofnun sjóðsins er að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og starfsnáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf. Skortur er á iðnmenntuðu starfsfólki og er sá skortur víða orðinn hamlandi fyrir starfsemi fyrirtækja. Samtök iðnaðarins og Kvika taka því höndum saman og vilja með stofnun sjóðsins vekja athygli á iðnnámi og hvetja þá sem velja að mennta sig á þessu sviði. Lögð verður áhersla á að jafna hlut kynjanna með því að hvetja konur sérstaklega til að skoða tækifæri sem bjóðast í iðn- og starfsnámi.