Fáskrúðsfirðingurinn Bjarney Birta Bergsdóttir, útskrifaðist á opinni stúdentsbraut við VA vorið 2022. Það sem heillaði Bjarneyju upphaflega við val á framhaldsskóla var að velja skóla sem vinkonur hennar voru í eða ætluðu í og hóf hún framhaldsskólagöngu sína fyrir sunnan en þegar hún flutti aftur austur þá var aldrei spurning um að fara annað en í VA. Hún þekkti nokkra í VA og því var valið auðvelt. Bjarney fer fögrum orðum um opnu stúdentsbrautina en þar gat hún stjórnað að miklu leyti hvaða áfanga hún tók sem hentaði henni vel.
Það sem stendur upp úr skólagöngu hennar var Reykjavíkurferð á vegum skólans, dimmiteringin en annars skemmti hún sér konunglega flest alla daga í skólanum að hennar sögn og tóku vinahópurinn ófáar félagsvistir í skólanum.
Bjarney telur að VA hafi ekki bara gefið henni góðan undirbúning í námi heldur einnig í því hvernig er gott að skipuleggja sig í námi. „Sumir áfangar kröfðust þess af manni að maður sýndi góða útsjónarsemi við verkefnavinnu“ og nefnir hún að oft fékk hún frjálsar hendur varðandi verkefnaskil og á hvaða formi þau voru. Fyrst fannst henni það erfitt en það kenndi henni að hugsa út fyrir kassann. Bjarney segir að starfsfólk skólans hafi verið hjálpsamt og hlustað á nemendur og tekið mark á skoðun þeirra.
Að lokum var Bjarney beðin um að koma með heilræði til þeirra sem eru að velja sér nám. „Pæla bara í því sem þú ert að gera, ekki velta þér upp úr því hvort þú sért að gera allt með sama árangri og einhver annar“.