Tæknidagur - grænn dagur - gulir, grænir og bláir dagar

Verkmenntaskóla Austurlands,

17. september 2019

 

Heil og sæl

Mig langar að skýra fyrir ykkur, nemendur og forráðamenn, hina litríku daga í skóladagatali Verkmenntaskóla Austurlands – sjá hér. Þar sem litir gefa lífinu lit þá erum við með nokkra liti; græna, gula, appelsínugula og bláa.

Grænir dagar eru kennsludagar og gulir dagar eru námsmatsdagar. Stundum eru próf haldin á námsmatsdögum en þeir eru líka ætlaðir kennurunum til úrvinnslu námsmats. Gulir dagar um miðja önn (t.d. 10. – 11. október) eru ætlaðir til úrvinnslu námsmats og nemendur þurfa ekki að mæta í skólann þessa daga. Að sjálfsögðu er nemendum þó velkomið að nýta skólann til náms þessa daga, s.s. bókasafnið. Á gulum dögum í desember og maí eru haldin lokapróf ásamt úrvinnslu námsmats. Verður próftafla haustannar birt hér fljótlega.

Laugardaginn 5. október verður Tæknidagur fjölskyldunnar haldinn í húsnæði VA. Er þetta í 7. sinn sem dagurinn er haldinn. Tæknidagurinn er afar mikilvægur þáttur í kynningu á starfi VA og eru allar deildir skólans opnar þennan dag. Áhersla er lögð á að veita gestum góða yfirsýn yfir hið fjölbreytta námsframboð sem til staðar er í skólanum.

Tæknidagur hefur frá haustinu 2018 verið ,,grænn dagur” í skóladagatali skólans sem þýðir að hann er nemendadagur. Nemendur og starfsfólk munu taka höndum saman um að gera daginn áhugaverðan og skemmtilegan. Sem dæmi um verkefni fyrir nemendur er að sinna kynningum í verknámsdeildum, sýna hvað er í gangi í kennslustundum, sinna uppsetningu sýningarsals, sinna móttöku gesta og upplýsingagjöf. Hver dagskólanemandi fær tveggja klukkustunda viðfangsefni í fjögurra tíma dagskrá dagsins. Enda er mikilvægt að nemendum gefist líka kostur á að skoða annað sem í gangi er á Tæknidaginn, s.s. kynningar á atvinnulífi á svæðinu og möguleika í framhaldsnámi.

Tæknidagurinn er dagurinn okkar allra – tækifæri okkar til að sýna skólann okkar og hvað hann hefur upp á að bjóða. Því er virk þátttaka allra afar mikilvæg.

Að sjálfsögðu er alltaf gott að rúsína leynist í pylsuendum en fyrir vikið var hægt að koma tveimur vetrarfrísdögum inn í skóladagatal VA á haustönn. Enda eru skóladagar ársins alltaf jafn margir, það er bara spurning um hvernig þeir raðast. Vetrarfríið er tímasett á sama tíma í VA og hjá grunn­skólunum í Fjarðabyggð. Þessir dagar eru appelsínugulir í skóladagatalinu, 21. og 22. október.

Til þess að gleyma ekki bláu dögunum þá eru þeir starfsdagar kennara.

Við starfsfólk VA hlökkum eins og alltaf mikið til að kynna skólann og sérstaklega þar sem það verður í þetta sinn í samstarfi við nemendur okkar. Erum við sannfærð um að aukin aðkoma nemenda muni gera þennan frábæra dag ennþá betri fyrir alla. Að sjálfsögðu vonumst við líka til sjá sem flesta aðstandendur kynna sér skólastarfið og annað sem Tæknidagur fjölskyldunnar hefur upp á að bjóða enda er hann sannkallaður fjölskyldudagur.

Kveðja,
Lilja, skólameistari VA