Þari og þang, rafsuða og litríkar tilraunir

Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands laugardaginn 1. október. Sem fyrr er dagurinn tileinkaður tækni, vísindum, nýsköpun og þróun á Austurlandi og er dagskráin sniðin að öllum aldurshópum. Þetta er í áttunda sinn sem Tæknidagurinn er haldinn og í fyrsta sinn síðan 2019 vegna Covid-19 faraldursins.

Það verður margt um að vera á Tæknideginum í ár eins og venjulega og dagskráin afar fjölbreytt. Fjöldi fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sýna starfsemi sína og lögð er áhersla á að gestir sjái hvernig tækni- og vísindaþekking nýtist fyrirtækjum í alls konar starfsgreinum.

Viðburðir verða í þremur byggingum: Í íþróttahúsinu í Neskaupstað og í verknáms- og bóknámshúsum VA. Sérstaka athygli að þessu sinni vekur Nýsköpunarkeppni grunnskólanna í Fjarðabyggð. Keppnin var haldin í fyrsta sinn á síðasta ári þegar nemendur á unglingastigi unnu með kvarnir úr kolmunna. Í þetta sinn unnu nemendur með þang og þara undir styrkri stjórn kennara sinna í skólunum. Utanumhald með keppninni var samstarfsverkefni VA og Matís. Á Tæknideginum verða nemendur til staðar og geta kynnt verkefnin sín og nýsköpunarferlið fyrir gestum. Þetta er svo sannarlega gott tækifæri til þess að sjá frumkvöðla framtíðarinnar. Klukkan 14 mun forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson síðan veita þeim verkefnum sem sköruðu fram úr verðlaun en hann mun heimsækja okkur á Tæknidaginn.

Og það verður margt, margt fleira í boði á Tæknideginum: Hið klassíska atriði þar sem bóndinn Doddi kryfur dýr verður að sjálfsögðu til staðar, hægt verður að prófa sig áfram í rafsuðu, gera litríkar tilraunir, sjá það nýjasta í austfirski gosframleiðslu, kíkja í gula herbergið, spreyta sig á Gettubetur prófi skólans, kynna sér ýmsar iðngreinar og möguleika sem nám í þeim færir og fá „heilsufarstékk“ á staðnum! Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar verða á svæðinu og öll ættu að finna eittvað við sitt hæfi.

Einnig mun Verkmenntaskólinn bjóða gestum upp á kaffi og með því í tilefni af því að verið er að taka í gagnið nýja aðstöðu innan skólans eftir framkvæmdir. Þar verður efnt til hugmyndasamkeppni um nafn á nýja salinn. Við hvetjum öll til þess að koma með hugmyndir að nafni!

Það er Verkmenntaskóli Austurlands sem stendur að Tæknideginum og nýtur til þess stuðnings frá SÚN, Síldarvinnslunni, Fjarðabyggð og Sparisjóði Austurlands. Dagskráin hefst kl. 12 laugardaginn 1. október og lýkur kl. 16. Við hvetjum ykkur til að mæta snemma til þess að geta séð sem flest!

Nánari upplýsingar um Tæknidag fjölskyldunnar veitir Birgir Jónsson hjá Verkmenntaskóla Austurlands í síma 8687556 // birgir@va.is