"Þetta er lítill og persónulegur skóli með góðum kennurum og frábæru félagslífi"

Á dögunum tók Ragnar Þórólfur Ómarsson við styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands en hann útskrifaðist frá VA síðastliðið vor. Styrkir eru veittir nýnemum við Háskóla Íslands sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og/eða íþróttum.

Ragnar hlaut fjölda verðlauna við útskrift sína úr VA en auk þess var hann liðsmaður í Gettu-betur liði skólans sem komst í undanúrslit keppninar sl. vor. Var það í annað skipti sem lið skólans kemst svo langt í keppninni. Einnig æfir Ragnar knattspyrnu með meistaraflokki KFA.

Ragnar segist mjög ánægður og þakklátur fyrir að hafa verið úthlutað styrknum. Ragnar er í lyfjafræði, planið hans var ekki alltaf að fara í lyfjafræði en þó vissi hann að hann vildi læra eitthvað tengt raungreinum. Eftir að hafa unnið í Lyfju breyttist hugarfar hans og varð hann ákveðinn í að læra lyfjafræði enda fannst honum starf lyfjafræðings mjög spennandi.

Ragnar upplifði tímann sinn í VA æðislegan en hann orðaði þetta svona “Það var alveg æðislegt að vera í VA, ég hlakkaði alltaf til að mæta í tíma og hitta vinina. Þetta er lítill og persónulegur skóli með góðum kennurum og frábæru félagslífi”. Hann telur sig hafa verið vel undirbúinn fyrir lyfjafræðina eftir veru sína í VA, var nánast kominn með allan grunn sem hann þurfti að hafa. Hann var á náttúruvísindabraut og þurfti að bæta við sig einum áfanga í lífrænni efnafræði í fjarnámi sem reynist auðvelt.