"Tilfinningin er geggjuð að vera loksins glímukóngur Íslands"

Meðan dagskrá Tæknidags fjölskyldunnar stóð sem hæst fór Íslandsglíman fram á Laugarvatni. Þar kepptu tveir núverandi nemendur skólans, þeir Þórður Páll Ólafsson og Hákon Gunnarsson sem eru að útskrifast með B-stig í vélstjórn auk viðbótarnáms til stúdentsprófs í vor. Þórður sigraði keppnina og hlaut þar með Grettisbeltið sem er elsti verðlaunagripur á Íslandi en fyrst var keppt um gripinn árið 1906. Hann sigraði allar sínar viðureignir. Hákon varð í öðru sæti.

Aðspurður sagði Þórður að þetta væri búið að vera langþráður draumur frá því að hann byrjaði í glímu í 5. bekk. Þar á undan hafði hann fylgst með systrum sínum og frændum í íþróttinni. Það hafi alltaf verið markmiðið að fara á toppinn en hann hefði ekki búist við því að þetta myndi gerast svona fljótt en með mikilli vinnu og þrautseigju hafi þetta hafist. 

"Tilfinningin er geggjuð að vera loksins glímukóngur Íslands", segir Þórður en hann er 38. glímukóngur Íslands frá upphafi og sá yngsti í sögunni.

Við óskum Þórði innilega til hamingju með árangurinn!