VA hlaut Erasmus+ styrk

Verkmenntaskóli Austurlands (VA) hlaut nú í vor veglegan styrk úr menntahluta Ersmus+ til að senda nemendur og starfsfólk í námsferðir til Evrópu. Erasmus+ er styrkjaáætlun Evrópusambandsins fyrir mennta- æskulýðs- og íþróttamál 2013-2020 en áætlunin mun veita 14,7 milljarða evra í styrki á þessu sjö ára tímabili til fjölbreyttra verkefna.

Styrkurinn sem VA hlaut var veittur til tveggja verkefna. Annars vegar til að efla verknám skólans með evrópsku samstarfi nemenda og kennara og hins vegar til að gefa starfsfólki kost á að sækja námskeið.

Í verkefninu Efling verknáms með evrópsku samstarfi verður nemendum og kennurum gefinn kostur á ferðast til samstarfsaðila VA í Evrópu. Verður nokkrum nemendum boðið að fara í tveggja vikna skiptinám til Viborg í Danmörku. Kennurum í verknámi býðst að fara í starfsspeglunarheimsóknir (e. job shadowing) til kollega sinna í Danmörku, Þýskalandi og Spáni. Tilgangurinn með þeim ferðum er einnig að styrkja enn frekar tengslin við þessa samstarfaðila VA í Evrópu með það að markmiði að auka nemendaskipti enn frekar.

Námskeiðsstyrkurinn veitir starfsfólki VA tækifæri til að sækja námskeið erlendis. Var í þetta sinn sótt um að sækja tvö námskeið sem tengjast því að draga úr brottfalli en yfirheiti verkefnis er Barist gegn brottfalli. Munu kennarar og aðrir starfsmenn sækja námskeiðin á haustönn 2017.

Evrópskt samstarf í VA gengur þó í báðar áttir því skólinn mun einnig taka á móti evrópskum nemendum og kennurum á komandi skólaári.

Verkefnin eru liður í því að byggja upp öflugt Evrópusamstarf við VA. Vegna aukinnar alþjóðavæðingar er afar mikilvægt að nemendur séu ekki aðeins undirbúnir fyrir frekara nám og/eða starf á Íslandi heldur einnig á alþjóðlegum markaði. Þessi þróun setur aukar kröfur á VA sem menntastofnun sem í dag þarf að þjálfa nemendur til starfa í síbreytilegu og alþjóðlegu umhverfi 21. aldarinnar. Því er sterk alþjóðleg tenging lykilatriði í skólastarfi nútímans.

Styrkurinn sem VA hlaut úr Erasmus+ áætluninni hljóðaði upp á 32.248 € og er afar mikilvægur fyrir eflingu erlends samstarfs við skólann.