VA hlýtur ISO 9001 vottun

Verkmenntaskóli Austurlands hefur hlotið vottun samkvæmt ISO 9001 gæðastaðlinum og gildir vottunin fyrir „Rekstur framhaldsskóla á verknáms- og bóknámsbrautum ásamt námi í vélstjórn B“. Um gríðarlega stórt skref er að ræða fyrir skólann og þýðir það að allt nám við skólann er gæðavottað. Vottun samkvæmt ISO 9001 þýðir að skólinn hefur komið upp stjórnunarkerfi sem mætir kröfum gæðastaðalsins ÍST EN ISO 9001:2015.

Undirbúningur og innleiðing á staðlinum hefur staðið yfir allt frá árinu 2014 þegar vinna hófst og hefur innleiðingin staðið frá því ári. Síðastliðið ár hafa mikilvægir þættir verið virkjaðir innan kerfisins, s.s. rýni stjórnenda og innri úttektir. Samhliða var ákveðið að fara í vottunarferli. Faggilti vottunaraðilinn iCert var ráðinn til að meta hvort skilyrði staðalsins væru uppfyllt og voru úttektir gerðar í nóvember 2020 og mars s.l. með þeim ánægjulega árangri að vottun var veitt nú í vikunni.

Vottunin gildir í þrjú ár en eftirlitsúttektir fara fram einu sinni á ári og svo heildarúttekt í lok gildistímans.

Meira má lesa um gæðakerfið hér.