VA hlýtur jafnlaunavottun

Verkmenntaskóli Austurlands hefur hlotið jafnlaunavottun og er þar með fimmti framhaldsskólinn á landinu að hljóta vottunina.

Jafnlaunavottun þýðir að skólinn hefur komið upp kerfi sem mætir kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST85:2012. Jafnlaunastaðallinn er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi og á grundvelli jafnlaunastaðalsins geta fyrirtæki og stofnanir fengið jafnlaunavottun. Með þessu hefur VA komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggja á að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Frekari upplýsingar um jafnlaunavottun má finna á heimasíða Jafnréttisstofu.

Undirbúningur og innleiðing á jafnlaunastaðlinum hefur staðið yfir síðan í haust. Vinnan við undirbúning og innleiðingu, sem og vottunarferlið, var leitt af Birgi Jónssyni, gæðastjóra skólans. Faggilti vottunaraðilinn iCert var ráðinn til að meta hvort skilyrði staðalsins væru uppfyllt og voru úttektir gerðar í desember 2019 og febrúar s.l. með þeim ánægjulega árangri að vottun var veitt nú í vikunni.

Vottunin gildir í þrjú ár en eftirlitsúttektir fara fram einu sinni á ári og svo heildarúttekt í lok gildistímans.