VA í undanúrslit!!

Í kvöld mætti Lið VA liði FÁ í 8-liða úrslitum Gettu betur í beinni útsendingu á RÚV. Fjöldi nemenda fylgdi liðinu suður þótt einhverjir hafi setið eftir heima eftir að flug seinni partinn var fellt niður. Þau sem voru komin í sjónvarpssal duddu rækilega við bakið á liðinu. Þetta var í þriðja sinn sem VA kemst í 8-liða úrslitin. Lið VA skipa þau Ágústa Vala Viðarsdóttir og tvíburarnir Geir Sigurbjörn og Ragnar Þórólfur Ómarssynir.

Eftir hraðaspurningar var staðan hnífjöfn 11-11 en eftir það seig okkar lið fram úr. Í lok keppninnar saxaði FÁ verulega á forskotið og gat jafnað með réttu svari í síðustu spurningunni en það varð ekki. VA vann því keppnina með 29 stigum gegn 23 og er komið áfram í undanúrslit í annað sinn í sögunni. Keppnin var sú fyrsta í 8-liða úrslitunum sem lýkur þann 24. febrúar og þá kemur í ljós hver andstæðingurinn verður í undanúrslitunum.

Það var þó ekki aðeins í spurningunum sem nemendur okkar slógu í gegn því hljómsveitin Dusilmenni steig á stokk en hún er skipuð nemendum skólans. Við erum svo sannarlega gríðarlega stolt af nemendum okkar sem slógu í gegn á öllum sviðum í kvöld og við getum ekki beðið eftir undanúrslitunum!