VA komið í 8-liða úrslit Gettu betur

Okkar fólk gríðarlega sátt eftir keppni gærkvöldsins
Okkar fólk gríðarlega sátt eftir keppni gærkvöldsins

Í gærkvöldi bar lið VA sigurorð af liði Borgarholtsskóla í annarri umferð spurningakeppninnar Gettu-betur. Keppnin var geysilega spennandi en lið VA hafði yfirhöndina lengst af. Eftir hraðaspurningar var staðan 17-13 fyrir VA en Borgarholtsskóli náði að jafna á síðustu bjölluspurningu 21-21. Þá var einungis hljóðdæmið eftir sem kom hjá okkar fólki. VA fer því áfram í 8-liða úrslit keppninnar í fyrsta sinn frá árinu 2002 en þá komst liðið einu skrefi lengra, í undanúrslit sem er besti árangur VA í Gettu betur frá upphafi. Í 8-liða úrslitunum nú munu þau etja kappi við lið Menntaskólans í Reykjavík föstudaginn 18. febrúar í beinni útsendingu í sjónvarpinu.

Við óskum þeim Hákoni, Helenu og Ragnari innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og við bíðum spennt eftir að sjá þau á sjónvarpsskjánum!