VA leiðir evrópskt samstarfsverkefni

Frá og með 1. September 2023 sl. leiðir VA evrópskt samstarfsverkefni með Tapa Gümnaasium í Eistlandi, Gimnazija Celje – Center í Slóveníu, D. Sancho Ensino, Lda. - Escola Profissional do Infante í Portúgal og Istituto di Istruzione Superiore "Roncalli" á Ítalíu.

Verkefnið er til tveggja ára og hefur á ensku yfirskriftina Teachers On track to Teach Marginalized Students eða TOTEMS. Markmið verkefnsins er að læra hvert af öðru og finna leiðir til að mæta nemendum sem eru á einhvern hátt á jaðrinum. Afrakstur verkefnisins verður í formi leiðbeiningarits sem er ætlað að hjálpa kennurum að mæta ólíkum nemendum og verður ritið gert á tungumálum þátttökuskólanna auk ensku og verður aðgengilegt öllum í verkefnislok. Gögnum verður safnað í gegnum heimsóknir kennara til allra landanna þar sem unnið verður með nemendum og starfsfólki á hverjum stað. Einnig mun utanaðkomandi sérfræðikunnátta verða nýtt.

Verkefnið nýtur styrkja úr Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins (2023-1-IS01-KA220-SCH-000165150) og er það í flokki Erasmus Plus KA220 verkefna Cooperation Partnerships. Verkefnið hlaut allt að 250.000 evrur í styrk.

Í lok ágúst var gengið frá samningi um verkefnið hjá Rannís í Reykjavík sem hefur umsjón með Erasmus+ styrkjaúthlutun á Íslandi. Í gegnum Rannís fær VA fjármuni til þess að fjármagna verkefnið.

VA hefur ríka reynslu af þátttöku í slíkum evrópskum samstarfsverkefnum sem eru styrkt af Erasmus en leiðir verkefni nú í fyrsta sinn. Á síðustu árum hefur skólinn tekið þátt í verkefnum eins og Will2Motivat(EU) og DEPEND. Hér má sjá yfirlit yfir verkefni sem VA hefur verið að vinna að eða tekur nú þátt í.