VA nemendur í Erasmus+ skiptinámi

Í VA gefst nemendur kostur á að sækja skiptinám erlendis hjá samstarfsskólum í Evrópu. Geta nemendur valið á milli þess að fara til Ungverjalands, Þýskalands, Spánar eða Danmerkur. 

Nú í vetur sóttu fjórir nemendur um að fara erlendis í skiptinám á Erasmus+ styrk en með því móti þurfa nemendur ekki að standa straum af neinum kostnaði tengdum ferðinni. Skiptinám þeirra allra stendur í þrjár vikur og hófst í morgun.

Fóru þau Marta Guðlaug og Benedikt Þór til Goslar í Þýskalandi þar sem þau munu vera í starfsnámi í húsasmíði og í skóla í bland. Fengu þau höfðinglegar móttökur nú um helgina og mættu svo á vinnustað í morgun. 

Á myndinni má sjá þau Benedikt og Mörtu mætt á vinnustað í morgun. 

Írena Fönn og Jónas Orri fóru í skiptinám til Szeged í Ungverjalandi.  Írena Fönn verður þar í skiptinámi í hársnyrtiiðn og Jónas Orri í húsasmíði. Fengu þau einnig höfðinglegar móttökur.

Hér má sjá Írenu Fönn og Jónas Orra í skoðunarferð í Szeged ásamt Ágnesi, sem er tengiliður VA við skólann í Szeged. 

Þess má geta að VA hlaut Erasmus+ styrk upp á rúmar 75.000 evrur til verkefnisins Efling starfsnáms við VA með evrópsku samstarfi II. Það verkefni stendur frá 2018 - 2020. Fleiri nemendur eiga eftir að fara í þriggja vikna dvalir sem styrktar verða sem þessu framlagi en einnig munu nokkrir nemendur fara í fjögura mánaða skiptinám til Danmerkur á komandi haustönn. 

Einnig er í gangi samstarfsverkefnið WILL to MotivatE(U) en það stendur árin 2018 - 2020. Þar er um að ræða svokallað ,,School-to-School" verkefni þar sem nemendur og starfsfólk fer á milli landa og lærir hvert af öðru. Í því verkefni vinnur VA með samstarfsaðilum frá Ungverjalandi, Króatíu, Ítalíu, Slóveníu og Noregi. Styrkurinn sem VA hlaut frá Erasmus+ til þessa verkefnis var rúmar 37.000 evrur. 

Mikil áhersla er lögð á uppbyggingu erlends samstarfs í VA og má sjá hér markmið skólans með þessari vinnu. 

Auk þess að senda nemendur í skiptinám erlendis tekur VA á móti erlendum nemendum frá samstarfsskólum og nokkuð er einnig um komu erlendra kennara til okkar. Nú á næstu vikum eigum við von á fjórum dönskum nemendum og einum þýskum og verða þeir hjá okkur í nokkrar vikur. Fara allir þessir nemendur í starfsnám hér á svæðinu og er þátttaka fyrirtækja í þessum verkefnum ómetanleg. Mun einn nemandi stunda skiptinám hjá MultiTask, tveir fara til G.Skúlason, einn til Launafls og loks einn til Trévangs. Nemarnir sem koma til okkar núna eru ýmist í námi í rafvirkjun, húsasmíði eða í ,,automatik". 

Er óhætt að segja að við í VA erum afar þakklát fyrir góðar móttökur erlendu nemanna okkar í fyrirtækjum á svæðinu og er ánægjulegt að segja frá því að fleiri fyrirtæki eru að koma inn í þetta samstarf. Án framlags fyrirtækjanna væri okkur ekki kleift að taka þátt í þessu erlenda samstarfi.