Vaskir vélstjórnarnemar

Upplestur á frétt.

Fyrr í vetur stóðu fjórtán iðn- og starfsnámsskólar á Íslandi sameiginlega að útgáfu blaðsins 2020, þar sem gerð er grein fyrir starfsnámi frá ýmsum hliðum en í þessum fjórtán skólum eru hátt í sextíu námsbrautir. Í haus blaðsins segir eftirfarandi: Nafn blaðsins vísar í sameiginlegt markmið skólanna, skýrt og mælanlegt markmið, að 20% grunnskólanemenda skrái sig í iðn- og verknám frá og með árinu 2020.

2020 var dreift til foreldra og forráðamanna allra nemenda í 8., 9. og 10. bekk á landinu, í samtals um 12.000 eintökum.

Í blaðinu var m.a. viðtal við þá Adam, Fannar, Guðjón, Stein og Þór sem eru nemar á 4. önn í vélstjórn.

Viðtalið má nálgast í heild hér: 

Í Verkmenntaskóla Austurlands er boðið upp á nám í vélstjórn til B réttinda. Námið er 217 einingar sem skiptist að jafnaði á sex annir. Það hefur mjög sterka tengingu við austfirskt samfélag þar sem sjávarútvegur er grunnstoðin. Sterkir námshópar hafa myndast í vélstjórninni og einn þeirra er hópur nemenda sem er á fjórðu önn í náminu. Þetta eru þeir Adam Ingi Guðlaugsson, Fannar Ingi Eiríksson, Guðjón Berg Stefánsson, Steinn Jónsson og Þór Elí Sigtryggsson.

“Áhuginn var svo mikill”

Þegar strákarnir voru beðnir um að nefna af hverju þeir væru í þessu námi nefndu þeir áhuga fyrir greininni, að námið sé “fjölbreytt og skemmtilegt” og þeir væru til í að vinna við þetta í framtíðinni. Áhuginn nær mislangt aftur. Tveir þeirra, þeir Adam og Þór Elí hafa haft áhuga síðan um miðja grunnskólagöngu meðan þeir Fannar og Steinn höfðu verið í öðru námi áður. Fannar í bóklegu en Steinn hafði verið í rafvirkjun. Bóknámið hafði ekki heillað Fannar og hann sagði: ““Ég veit ekki hvað ég ætti að fara að læra annað” sem sýnir að hann er á réttri hillu.

“Þú getur fengið vinnu hvar sem er”

Þegar talið barst að framtíðaratvinnu er ljóst að sjómennskan á hug þeirra flestra. Þrír þeirra nefndu strax að sjórinn væri draumavinnustaðurinn meðan tveir vildu alveg eins vera í landi. Það væri mikilvægt að prufa sig áfram hvar maður vildi vinna og að ljúka náminu skapaði fjölbreytt atvinnutækifæri. Það væri hægt að sitja við tölvu eða gera við vélar allan daginn eftir því hvað hugurinn girntist hverju sinni. Þeir eru sammála um að launin að námi loknu myndu heilla en þau væru þó ekkert aðalatriði heldur skipti miklu máli að klára réttindin fyrst, það skapi manni starfsframa. “Þú getur fengið vinnu hvar sem er, í öllum bæjarfélögum”, ef þú klárar réttindin.

“Bóknám hljómar eitthvað svo leiðinlega”

Þeir líta á það, að hafa byrjað í náminu strax eftir grunnskólanám, sem það eina í stöðunni og benda á nærtækt dæmi um nemanda sem þeir þekkja. Sá kláraði stúdent úr öðrum skóla fyrst en er nú í vélstjórnarnámi og lýsir því sem mistökum að hafa tekið stúdentinn á undan.

“Þú ert ekki bara einhver tala á blaði einhvers staðar”

Þeir bera Verkmenntaskólanum afar vel söguna og að mesti munurinn á honum og öðrum skólum felist í því hversu lítill og heimilislegur hann sé. Þegar talið berst að kennurunum eru strákarnir sammála um að þeir séu mjög góðir. “Þú ert ekki bara einhver tala á blaði einhvers staðar, þeir sjá miklu meira um þig og hjálpa þér miklu meira heldur en væri kannski gert annars staðar.”Það hjálpar að skólinn sé lítill og hópastærðin þar með en hóparnir þurfa að vera samstilltir. Þessi hópur hefur verið saman síðan þeir byrjuðu í náminu og eru þeir orðnir mjög samheldnir. Þeir væru jafnvel til í að vinna saman að námi loknu í einhverri virkjun langt frá mannabyggðum.

Þegar þeir ljúka náminu hér í VA þurfa þeir að fara annað hvort norður eða suður ef þeir ætla að klára C-réttindin. Það stendur ekkert í þeim og þeir ætla sér allir þangað. Adam ætlar suður en hinir ætla norður. Þegar þeir voru spurðir hvort það væri ekkert mál var viðkvæðið: “Þarf maður ekki einhvern tíman að flytja út?” Þegar þú hefur valið rétta námið er stefnan skýr.