Veglegur styrkur til VA

Alcoa Foundation veitti Verkmenntaskólanum veglegan styrk á dögunum. Hann er ætlaður til að styrkja aðstöðu í kennslu í málmiðngreinum. Styrkurinn sem er til þriggja ára hljóðar upp á 113.000 dollara eða um 14,5 milljónir. Hugsunin með styrknum er að nýta hann í tækjakaup í málmiðndeild með það fyrir augum að gera góða aðstöðu enn betri og fjölga nemendum í málmiðngreinum.
 
Samhliða þessu er hugsunin að koma upp að nýju fjölbreyttari námstækifærum í málmiðngreinum í takti við þarfir atvinnulífsins, t.d. með dreifnámi. Það er ómetanlegt fyrir skólann þegar hann nýtur góðs af atvinnulífinu og þeim öflugu fyrirtækjum sem eru í sveitarfélaginu.

Við þökkum Alcoa kærlega fyrir styrkinn og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.