Vel heppnað hryllingshús

Í gær stóðu nemendur VA við listaakademíu skólans fyrir uppsetningu á hryllingshúsi í húsnæði heimavistarinnar. Óhætt er að segja að það hafi heppnast afar vel og þökkum við öllum þeim sem lögðu leið sína í hryllingshúsið kærlega fyrir komuna. Hryllingshúsið var opið frá kl. 17-20 en fyrsti klukkutíminn var sérstaklega sniðinn að yngri kynslóðinni og hryllingshúsið ögn minna skelfilegt á þeim tíma en milli kl. 18-20 var það ógnvænlegra þó sumum hafi þó sannarlega orðið nóg um í heimsóknum sínum fyrsta klukktuímann. Byrjað var að hleypa inn í húsið í hollum kl. 17, þar sem farið var með 3-4 í hóp hverju sinni inn og var biðröð út á bílastæði lengi vel en gera má ráð fyrir að um það bil 100 gestir hafi heimsótt húsið á þessum tíma. 

Nemendur okkar í listaakademíunni hafa svo sannarlega haft í nógu að snúast undanfarna daga, en það krefst mikillar vinnu að setja upp hryllingshús eins og þetta, bæði hvað uppsetningu varðar og búningahönnun. Svo ekki sé talað um tímann sem fer í hugmyndavinnu og viðveru á staðnum. Við þökkum listaakademíunni kærlega fyrir sitt framlag en okkur í VA þykir einstaklega skemmtilegt að geta boðið upp á þennan viðburð fyrir unga sem aldna nú þegar farið er að dimma úti og nálgast hrekkjavökuna og Daga myrkurs hér hjá okkur á Austurlandinu.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af nemendum listaakademíunnar í gær.