Vel heppnaðir Kærleiksdagar að baki

Kærleiksdagar VA voru haldnir miðvikudaginn 13. mars og fimmtudaginn 14. mars. Þar nutu nemendur og starfsfólk samveru auk þess sem áhersla er á að safna peningum til góðs málefnis. Ýmislegt var í gangi þessa daga. Framan af degi á miðvikudeginum gátu nemendur valið sér fjölbreyttar vinnustofur, m.a. í prjóni, litun, hárgreiðslu, þrautum, pílu, billjard og klifri. Einnig fóru allir nemendur á fræðslu hjá Lögreglunni.

Klukkan fjögur hófst síðan hápunktur daganna þegar nemendur og starfsfólk kepptu í hinum ýmsu keppnisgreinum að ósk nemenda. Keppt var í fótbolta, blaki og körfubolta. Ekki verður farið nánar út í úrslit keppnanna en öll skemmtu sér vel. Að loknum íþróttunum var öllum boðið í pizzu og spurningakeppni var í salnum.

Á fimmtudeginum var ætlunin að fara í fjallaferð í Oddsskarð en vegna veðurs var hún blásin af. Í staðinn gátu nemendur valið úr fjölbreyttum vinnustofum og síðan lauk deginum á páskaeggjaleit í skólahúsnæðinu.

Um kvöldið var síðan árshátíð nemenda í Egilsbúð þar sem borðaður var góður matur, notið skemmtiatriða og dansað fram yfir miðnætti. Þema kvöldsins var eldur og ís og meðal skemmtiatriða voru myndband nemenda, myndband kennara og krýningar. Einnig söng Margarette B. Sveinbjörnsdóttir dásamlega fyrir gesti en hún mun keppa fyrir hönd skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna á Selfossi þann 6. apríl.