Vel heppnuð lýðræðisvika

Í síðustu viku var lýðræðisvika í framhaldsskólum landsins. Í skólanum okkar voru nokkrir viðburðir sem tengdust vikunni beint. Á miðvikudaginn fór fram kosning í stjórn nemendafélagsins, NIVA. Þar voru kosnir níu fulltrúar nemenda sem munu nú einhenda sér í það verkefni að keyra upp félagslífið innan skólans. Við óskum þeim velfarnaðar í störfum sínum.

Hér má sjá hvernig ný stjórn er skipuð.

Sama dag sátu fulltrúar stjórnmálaflokka, sem bjóða fram í Alþingiskosningum þann 25. september, fyrir svörum hjá nemendum í stofu 1. Ísabella Danía Heimisdóttir, nemandi, var fundarstjóri og stjórnaði fundinum röggsamlega.

Hver flokkur hélt stutta framsögu og síðan komu spurningar úr sal. Kom fram á máli frambjóðenda eftir fundinn að þeir hefðu sjaldan fengið jafn krefjandi spurningar og komu frá nemendum.

Um kvöldið var svo haldið spilakvöld á heimavistinni fyrir alla nemendur.

Á fimmtudeginum fóru Skuggakosningar fram en þær fóru einnig fram í öðrum framhaldsskólum þann sama dag. Var skipuð kjörstjórn nemenda sem hélt utan um kosningarnar með fulltingi þeirra Varða og Sibbu. Nemendur mættu síðan á kjörstað og kusu þá flokka sem heilluðu þá mest. Var þátttakan í kosningunum góð.

Frekari upplýsingar um lýðræðisvikuna í framhaldskólum má finna á vefnum egkys.is

Hér fyrir neðan má finna myndir frá vikunni.