Verkleg tilraun í erfðafræði

Á námsmatsdögunum komu nemendur í erfðafræði inn í skólann og gerðu verklega tilraun í erfðafræði. 

Tilgangurinn með tilrauninni var að einangra erfðaefni (DNA) úr kinnfrumum. Byrjað var að ná í sýni með því að skafa kinnhold með tönnum svo kinnfrumur losni. Munnvatn með kinnfrumum var svo losað í tilraunaglas.

Til að komast að DNAinu og einangra þurfti að brjóta niður frumu- og kjarnahimnur og prótein frumnanna. Til að brjóta niður frumu- og kjarnahimnur er sápuefni notað og er því bætt í tilraunaglasið. Meltingarensím er svo notað til að brjóta niður prótein. Ensímið vinnur best við 50°C og er lausnin látin liggja í 50°C heitu vatnsbaði í 10 mínútur. Lausnunum er blandað varlega á milli aðgerða með því að hvolfa glasinu varlega nokkrum sinnum.

Að lokum er ísköldu hreinispritti bætt í lausnina og látið standa í 5 mínútur. Er það gert til að draga DNA úrlausninni og í sprittið sem situr ofaná lausninni.

Í lok tilraunar skoðuðu nemendur DNA sitt í gegnum smásjá. Sjón er sögu ríkari eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.