Viborgarfréttir 2

Dvöl okkar hér í Viborg fer brátt að taka enda. Í seinustu viku fengum við frí vegna þess að áfanginn sem við áttum að vera í hafði eitthvað dregist til þannig við nýttum tækifærið og pöntuðum okkur ferð til Árósa jafnt sem gistingu á Cabin-inn nokkra daga. Ég var sérstaklega spenntur þar sem að þetta var akkúrat helgin sem ein af uppáhalds hljómsveitunum mínum Mannequin Pussy var að spila. Flestir dagarnir fóru í það að rölta og skoða okkur um með ekkert sérstakt takmark í huga nema bara að njóta þess, sem er bara mjög nauðsynlegt svona annað slagið.

Við Rebekka áttum pantaðan tíma í húðflúr hjá House of ink í Árósum helgina eftir þessa ferð en við náðum að tala stúlkuna inn á það að flúra okkur á föstudeginum þar sem við vorum hvort eð er stödd í Árósum og Halldóra hafði pantað sér áhorfendasæti í fremstu röð til að fylgjast grannt með öllum villum sem húðflúrarinn gæti gert með tilheyrandi flauti og spjöldum. Stelpan sem heitir Stina (@shegotuhigh á instagram) og er frá Svíþjóð tók það verkefni að sér að reyna að púsla ruglinu hjá okkur saman í húðflúr sem hefði sennilega ekki getað tekist betur.

Ég byrjaði að fara undir hnífinn hjá henni sem hún lagði fljótt frá sér í skiptum fyrir tattúnálina. Þessi mennska saumavél stóð sig með prýði og gerði starf sitt bæði fljótt og vel og kláraði hún okkur bæði á um 5 tímum sem innihélt hönnun, teikningu og flúrun á fimm húðflúrum allt í allt. Þegar þetta var allt búið komumst við að því að þau voru ekki með posa þannig að næst á dagskrá var að byrja að hlaupa... yfir í næsta hraðbanka. Hraðbankarnir voru virkilega tregir að skammta okkur pening þannig að 4 kílóum, 3 kílómetrum og 2 hraðbönkum seinna komum við másandi til baka og borguðum flúrin.

Loks kom svo að þeim degi sem ég var spenntastur fyrir, Mannequin Pussy deginum eins og hann er oft kallaður af engum nema mér. Ég byrjaði að leiða okkur í vitlausa átt meðfram síkinu í Árósum en við enduðum loks á réttum stað, næstum því á réttum tíma. Við vorum varla komin inn úr dyrunum þegar að sveitin byrjaði að spila. Ég fílaði mig í botn og hálf dansaði allan tíman meðan stelpurnar dönsuðu sennilega bara andlega því ég sá litla hreyfingu frá þeim á meðan tónleikunum stóð. Þegar tónleikarnir voru búnir kom söngkonan fram og fór í það að selja diska, boli og fleira. Við fórum náttúrulega í röðina þar sem Rebekka fékk eiginhandaráritun, ég keypti disk, nælu og sagði henni að ef þau myndu eitthverntíman spila á Íslandi skildu þau hafa samband við mig þar sem Sárasótt væri örugglega tilbúin að hita upp fyrir þau.

Næsta morgun gengum við frá herberginu okkar og fórum beinustu leið upp í lest til Viborgar. Þetta ferðalag var algjört ævintýri og ég myndi ekki hika við að fara í það aftur. En ef eitthver fer á Cabin-inn í Árósum á næstunni endilega hafið augun opin fyrir handklæðinu mínu, þess er sárt saknað.


Þórir