Vísindasmiðja, heimatilbúin háfjallahjólhýsi og keppni í rafsuðu

Sprengju-Kata verður á Tæknidegi fjölskyldunnar.
Sprengju-Kata verður á Tæknidegi fjölskyldunnar.

Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands laugardaginn 5. október. Sem fyrr er dagurinn tileinkaður tækni, vísindum, sköpun og þróun á Austurlandi og miðast dagskráin við alla aldurshópa. Þetta er í sjöunda sinn sem Tæknidagurinn er haldinn og hefur aðsókn aukist ár frá ári.

Það verður margt um að vera á Tæknideginum í ár eins og venjulega og dagskráin þétt og fjölbreytt. Dagurinn er tileinkaður tækni, vísindum, iðnaði, nýsköpun og þróun. Fjöldi fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sýna starfsemi sína og lögð er áhersla á að gestir sjái hvernig tækni- og vísindaþekking nýtist fyrirtækjum í alls konar starfsgreinum.

„Tæknidagurinn var upphaflega settur á laggirnar til að kynna fyrir ungu fólki hvað það getur verið spennandi að afla sér menntunar á þessu sviði,“ segir Birgir Jónsson hjá Verkmenntakóla Austurlands en hann skipuleggur daginn að þessu sinni með góðum hópi fólks. „Við erum enn trú þessu markmiði og teljum mikilvægt að ungt fólk sjái hvað þessar atvinnugreinar geta verið spennandi og tækifærin mörg á vel launuðum og spennandi störfum hér á svæðinu.“

Viðburðir verða í  þremur byggingum: Í íþróttahúsinu í Neskaupstað og í  verknáms- og bóknámshúsum VA og miðast  dagskráin  við  alla  aldurshópa. Sérstaka athygli að þessu sinni vekur koma Vísindasmiðju Háskóla Íslands en tilgangur hennar er að efla áhuga ungmenna á vísindum með gagnvirkum og lifandi hætti. Gestir geta gert óvæntar uppgötvanir og framkvæmt litríkar tilraunir. Hægt verður að búa til vasaljós á staðnum, smíða vindmyllu og spila á furðuhljóðfæri. Sprengju-Kata verður með í för og mun búa til dularfullar efnablöndur eins og henni einni er lagið. Þá verður hægt að kynna sér himinn og jörð með Sævari Helga, stjörnufræðingnum góðkunna. Allt þetta og meira til verður í boði Vísindasmiðjunnar á Tæknidegi fjölskyldunnar. Þess má geta að hún fékk sérstaka viðurkenningu á Vísindavöku Rannís um síðustu helgi fyrir framlag til sitt til miðlunar fróðleiks um vísindi til grunnskólabarna.

Og það verður margt, margt fleira í boði á Tæknideginum: Boðið verður upp á fyrirlestur um Helgustaðanámu, keppt verður í rafsuðu, bóndinn Doddi kryfur ref, hágreiðslunemar sýna hátæknilegar „fantasíugreiðslur“, alþýðufrumkvöðullinn Ási Páll sýnir heimatilbúið háfjallahjólhýsi og þú getur fengið „heilsufarstékk“ frá starfsfólki HSA á staðnum! Nokkrir tugir fyrirtækja, stofnana og einstaklinga verða á svæðinu og allir ættu að finna eittvað við sitt hæfi.

Það eru Verkmenntaskóli Austurlands og Austurbrú sem standa að Tæknideginum og njóta til þess stuðnings frá SÚN, Sesam brauðhúsi, Alcoa Fjarðaáli, Eimskipi Flytjanda, Síldarvinnslunni og Fjarðabyggð. Aðsókn á Tæknidaginn hefur aukist ár frá ári en um 1700 manns heimsóttu hann í fyrra. Dagskráin hefst kl. 12 laugardaginn 5. október og lýkur kl. 16. Það borgar sig að mæta snemma vilji maður sjá sem flest!

Tæknidagur fjölskyldunnar á Facebook.

Nánari upplýsingar um Tæknidag fjölskyldunnar veitir Birgir Jónsson hjá Verkmenntaskóla Austurlands í síma 8687556 // birgir@va.is