Will to MotivatE(U)

Skólinn hefur tekið þátt í samstarfsverkefninu Will to MotivatE(U) síðastliðið ár með skólum í Ungverjalandi, Slóveníu, Króatíu, Ítalíu og Noregi. Verkefnið felst í því að efla áhugahvöt nemenda og starfsfólks. Hist er í fimm daga í senn á hverjum stað og unnið að þematengdum viðfangsefnum. Í sumum ferðanna eru nemendur með og í öðrum er einungis starfsfólk.

Dagana 21.-25. október var haldið til Ítalíu en áður hefur verið hist í Noregi og Slóveníu. Í þetta sinn voru bæði nemendur og starfsfólk. Þau Steinunn Dagmar og Atli Fannar voru valin úr hópi nemenda til að taka þátt í verkefninu og fóru ásamt þeim Salóme og Birgi.

Haldið var af stað á laugardeginum til Reykjavíkur og síðan á Keflavíkurflugvöll eldsnemma á sunnudagsmorgni, 20. október. Ferðin þangað gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig þar sem kennararnir ákváðu að vekja foreldra Steinunnar fyrir misskilning. Þegar það var að baki og Steinunn komin í bílinn var haldið af stað til Keflavíkur þaðan sem flogið var áleiðis til Parísar. Þar var stoppað í um tvo tíma og flogið áfram til Flórens á Ítalíu.

Þegar komið var til Flórens upphófst mikið kapphlaup til að ná sporvagni og síðan lest áfram til áfangastaðarins, Poggibonsi. Það hafðist og kom hópurinn á áfangastað klukkan rúmlega 19 að staðartíma. Steinunn og Atli áttu að búa hjá ítalskri fjölskyldu og var “mamma” þeirra komin á lestarstöðina að sækja þau. Ítalskir kennarar komu og sóttu hina íslensku og komu þeim fyrir á hóteli.

Daginn eftir hófst dagskráin í Roncalli skólanum með setningu. Þar töluðu m.a. yfirmaður héraðsins, borgarstjórinn og yfirmenn menntamála. Það sem eftir lifði dags fengu nemendur og kennarar kynningu á deildum skólans þar sem nemendur voru í aðalhlutverki og hópurinn var hristur saman. Þar þurfti t.d. að skrifa hrós á miða sem festur var framan á alla. Það var svo sannarlega áskorun að hrósa fólki sem maður þekkti ekki en gríðarlega lærdómsríkt.

Á þriðjudeginum var byrjað á því að sækja markað sem er á hverjum þriðjudegi í Poggibonsi þar sem allir gerðu góð kaup. Þegar því var lokið var haldið á kynningu á ráðum skólans og hlutverkum mismunandi hópa í þeim. Þegar henni var lokið tók önnur kynning við á því hvernig er hægt að ná árangri með nemendum. Í þessu voru nemendur í stórum hlutverkum. Þegar því var lokið héldu nemendur heim með fjölskyldum sínum en kennarar fóru í vinnustofu um sjálfið.

Á miðvikudagsmorgun fóru nemendur að búa til app en kennarar héldu áfram í vinnustofu um sjálfið þar sem meðal annars var farið í hugleiðslu. Þar voru ítalskir nemendur með og var frábært að sjá hversu þjálfuð þau voru í hugleiðslunni. Eftir að því var lokið var kynning á tækifærum fyrir nemendur í Evrópusamstarfi og vinnustaðanám. Kom þar í ljós helsti munurinn á veruleika íslenskra og ítalskra ungmenna þar sem vinnustaðanámið var gjarnan fyrsta reynsla þeirra ítölsku af einhvers konar vinnu. Í kynningum stóð einnig upp úr samstarf skólans við fyrirtæki en fyrirtæki taka virkan þátt í vinnustaðanáminu og koma inn í skólann með skipulögðum hætti. Það er gert með eflingu starfsnáms að leiðarljósi.

Á fimmtudeginum tóku þátttakendur á móti viðurkenningum fyrir vikuna og haldið var til Siena þar sem samveru var notið í ægifögru umhverfi. Næsta dag var haldið áfram með að njóta menningar Ítalíu þar sem haldið var til Flórens. Þar var deginum eytt við að njóta útsýnis, verslana, lista og menningar.

Á laugardeginum var haldið til baka. Dagurinn hófst með bílferð, næstum flugferð, með ítölskum bílstjóra sem sá um að koma hópnum á flugvöllinn í Flórens. Þaðan var flogið til Barcelona og síðan heim. Ferðinni lauk síðan á sunnudeginum þegar allir flugu til Egilsstaða.

Það sem liggur að baki eftir vikuna er ómetanleg reynsla. Í verkefninu kynnumst við aðferðum til að nota í lífi og starfi, ólíkri menningu og myndum tengsl til framtíðar. Steinunn og Atli mynduðu strax tengsl við nemendurna frá hinum löndunum og kynnust auk þess ítalskri menningu mjög vel í gegnum heimagistinguna. Á kvöldin var stíf dagskrá kennaranna og þar kynntumst við menningu Ítalíu og mynduðum sterk tengsl við kollega okkar. Þar kynntumst við skólakerfinu í löndunum frá ýmsum hliðum. Evrópusamstarf eins og þetta gefur einstaklingum og skólanum í heild gríðarlega mikið. Næsti hluti verkefnisins verður í Ungverjalandi dagana 9.-13. desember og þangað halda þrír nemendur og tveir kennarar.

Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér.